Jólasveinninn í Rovaniemi úti í skógi í snjó um jólaleytið
Jólasveinninn í Rovaniemi úti í skógi í snjó um jólaleytið

Segir sjálfur jólasveinninn

Mývetningar halda því fram að jólasveinninn eigi heima í Dimmuborgum og því trúum við hjá Skógræktinni auðvitað. Í Dimmuborgum er líka náttúrlegur íslenskur birkiskógur. En Finnar halda því fram að heimili jólasveinsins sé í Lapplandi. Við getum kannski sagt að jólasveinarnir búi í Dimmuborgum en jólasveinninn búi í Lapplandi, svona til að treysta böndin í báðar áttir. En sá finnski er hvað sem öðru líður með sannan jólaboðskap í myndbandi sem rak á fjörur okkar.

Greinilegt er á myndbandinu að jólasveinninn finnski er ákafur skógræktarmaður. Hann kann að minnsta kosti að meta gildi skógarins fyrr og nú fyrir okkur mennina - og fyrir hreindýrið! Hann talar enskuna með skemmtilegum finnskum hreim og skeggið er bara nokkuð sannfærandi, jafnvel þótt við getum ekki kippt í það til að gá. Myndbandið gerði kvikmyndafyrirtækið Flatlight Films fyrir FAO, landbúnaðar- og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, finnska skógarsambandið SMY, evrópsku skógarvikuna hjá UNECE og heimili jólasveinsins í Rovaniemi.

Horfa á myndbandið