Stóraukið samstarf Skógrækarinnar og Landgræðslunnar

Möguleikar kunna að vera til skógræktar á nokkrum svæðum í Þingeyjarsýslum þar sem Landgræðslan hefur unnið að uppgræðslu. Samstarf Skógræktarinnar og Landgræðslunnar er að aukast mjög.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra að kolefnisbinding verði eitt meginmarkmið Þorlákshafnarskóga í Ölfusi og sömuleiðis þeirra skóga sem kunni að verða ræktaðir á landgræðslusvæðum í Þingeyjarsýslum.

Frétt Helga Bjarnasonar blaðamanns í Morgunblaðinu er á þessa leið:

Landgræðsla ríkisins og Skógræktin eru að skoða nokkur gömul landgræðslusvæði í Þingeyjarsýslu með það í huga að hefja þar skógrækt. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir að möguleikar kunni að vera í nokkrum gömlum skógræktargirðingum, til dæmis í Bárðardal, á Hólasandi og í Kelduhverfi. Einnig kunni að vera svæði á Vestfjörðum. „Við ætlum að skoða þetta aðeins betur og velja svæðin vel. Við viljum taka þau svæði þar sem von er á mestum og bestum árangri í skógrækt,“ segir Þröstur.

Nýir landgræðslu- og skógræktarstjórar hafa verið að taka upp nánara samstarf stofnana þeirra á ákveðnum sviðum. Einn árangur þess er þríhliða samstarf Landgræðslu, Skógræktar og Sveitarfélagsins Ölfuss um ræktun skógar á stóru landgræðslusvæði á Hafnarsandi við Þorlákshöfn. Skipuð hefur verið verkefnisstjórn og ákveðið að ráða verkefnisstjóra til að undirbúa næstu skref. Stefnt er að því að ljúka áætlanagerð og fjármögnun fyrir mitt næsta ár.

Þröstur telur að næst Þorlákshöfn verði væntanlega gerður útivistarskógur með göngustígum. Telur hann að kolefnisbinding verði meðal markmiða meginhluta skógræktarinnar en það verði betur útfært í áætlun.

Kolefnisbinding aukin

Þröstur segir að sömu sjónarmið gildi um skógrækt á landgræðslusvæðum í Þingeyjarsýslu. Þar verði aukin kolefnisbinding eitt af meginmarkmiðunum. „Þótt landgræðslan geri gagn með bindingu jarðvegs þá gerir skógurinn enn meira gagn, þegar hann bætist ofan á,“ segir Þröstur. Hann tekur fram að slík stórverkefni séu háð því að ríkið og hugsanlega viðkomandi sveitarfélög vilji koma til liðs við Skógræktina og Landgræðsluna um framkvæmdina og hugsanlega aðrir aðilar sem vilji taka þátt í að auka kolefnisbindingu.

Umhverfismat hugsanlegt

Undirbúa þarf framkvæmdir af þessu tagi vel. Þannig er gert ráð fyrir að skógræktarverkefni af þessari stærð verði tilkynnt til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats áætlana. Þröstur segir ekki vitað hvort gera þurfi fullt umhverfismat en bendir á að þess hafi ekki verið krafist við undirbúning Hekluskóga sem taki yfir margfalt stærri svæði en þau verkefni sem nú er verið að undirbúa eða ræða um á Hafnarsandi og í Þingeyjarsýslu.

oihoh

Á Hálsmelum í Fnjóskadal er ríflega tuttugu ára gamall lerkiskógur þar sem áður
var þurr og gróðurlaus eyðimörk. Í fyrrahaust gaf skógurinn um 600 fyrsta flokks
girðingarstaura og á komandi árum verður hægt að sækja í hann grisjunarvið og að
lokum boli til flettingar í borð og planka. Þetta er dæmi um vel heppnaða endurheimt
landgæða. Á myndinni er Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum (t.h.) ásamt
skógarhöggsmönnunum Teiti og Valgeiri Davíðssonum. Mynd: Pétur Halldórsson.