Skoðunarferðir eru í boði um öll löndin sem taka þátt í því ásamt Svíum að halda heimsráðstefnu IUFR…
Skoðunarferðir eru í boði um öll löndin sem taka þátt í því ásamt Svíum að halda heimsráðstefnu IUFRO 2024. Mynd af vef IUFRO

Öll löndin átta sem standa að skipulagningu heimsráðstefnu IUFRO hafa skipulagt skoðunarferðir fyrir eða eftir ráðstefnuna. Tvær ferðir eru skipulagðar um Íslands en einnig eru í boði ferðir um Skandinavíu og Eystrasaltsríkin.

Ferðirnar um Ísland eru annars vegar svokölluð jöklaferð þar sem ekið verður um Suðurland og austur á firði og endað á Egilsstöðum. Fararstjóri í þeirri ferð verður Bjarni Diðrik Sigurðsson, skógfræðiprófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hins vegar er ferð sem kennd er við hálendi Íslands en þá verður byrjað á Suðurlandi og ekið norður yfir Hálendið og austur um til Egilsstaða. Fararstjóri í þeirri ferð verður Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar. Komið verður við í skógum á leiðinni en ferðirnar eru þó alls ekki skógarferðir fyrst og fremst heldur til að sýna fólki landið og menningu þjóðarinnar.

Eins er með ferðirnar til Skandinavíu og Eystrasaltsríkjanna. Þær hafa mismikla skógartengingu en einhverja þó. Annars er þeim ætlað að kynna löndin, menningu þeirra og sögu. Í hjarta barrskóganna kynnast ferðalangar náttúru og menningu um Jónsmessuna þar sem ferðast verður um norðanverða Svíþjóð og farið yfir til Finnlands. Ferð í norsku firðina hefst í Mið-Svíþjóð og þaðan er haldið um firði sunnanverðs Noregs. Undir miðnætursólinni verður líka skipulögð ferð um Norður-Svíþjóð og Norður-Finnland en í ferð um Suður-Svíþjóð er yfirskriftin sjúkdómar, fjölbreytni og afurðir. Úr skógi á diskinn er þema ferðar um Suður-Svíþjóð og austanverða Danmörku þar sem litið verður á skógarskemmdir, aðlögun að loftslagsbreytningum og afurðir. Loks er svo ferð um Eystrasaltslöndin þrjú, græna gimsteina Evrópu eins og það er kallað í kynningu.

Nánar má kynna sér ferðirnar á vef heimsráðstefnunnar.

Texti: Pétur Halldórsson