Um miðjan október voru sett upp skilti við hinar ýmsu trjátegundir í trjásafninu í Múlakoti. Eru skiltin gerð úr tré, að hluta til íslenskum við, með útprentuðum texta á hvítri örk. Skiltin voru hönnuð og smíðuð af starfsmönnum S.r. á Tumastöðum. Texta á skiltin hafa Þórarinn Benedikz ofl. samið. Á skiltunum kemur fram tegund og kvæmi trjánna og hvenær þau eru gróðursett. Er þetta mikil bragarbót og mun gleðja þá mörgu gesti sem sækja trjásafnið í Múlakoti heim. Í Múlakoti má finna ýmsar sjaldséðar trjátegundir s.s. hæstu hengibjörk og hæstu blæösp af íslenskum uppruna hér á landi. Til stendur að setja upp bekki í safninu og bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða.