Guðmundur Magnússon með viðarskífu úr íslensku lerki. Skjámynd úr myndbandinu
Guðmundur Magnússon með viðarskífu úr íslensku lerki. Skjámynd úr myndbandinu

Viðarskífur eru endingargott efni til klæðningar á veggi og þök. Þær geta enst mannsaldra og lerki úr ung­um skógum hentar prýðisvel til skífuframleiðslu.

Um þetta er fjallað í nýju myndbandi sem Skógræktin hefur gefið út. Þar er rætt við Guðmund Magnússon, trésmið á Flúðum í Hrunamannahreppi, sem keypti fyrir nokkrum árum sérstaka vél til framleiðslu á viðar­skíf­um. Hann hefur gert tilraunir með ýmsar trjátegundir en lerkið kemur einkar vel út enda veðrast það seint.

Slíkar skífur hafa verið notaðar frá fornu fari í öðrum löndum, ekki síst í Austur-Evrópu, og geta enst um áraugi og jafnvel aldir ef rétt er frá gengið. Þunnar skífurnar eru fljótar að þorna og því eiga fúasveppir erfitt uppdráttar í viðnum ef rétt er gengið frá skífunum í upphafi. Í myndbandinu segir Guðmundur frá húsi á Selfossi sem reist var fyrir aldamótin 1900 og klætt viðarskífum. Hann sýnir skífu af því húsi sem enn er ófúin eftir allan þennan tíma.

Texti: Pétur Halldórsson