Grenitré víða ljót en megnið af lúsinni virðist hafa drepist í vetur

Einn af vorboðunum á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá eru símtöl frá áhyggjufullum trjáeigendum og áhugamönnum sem hafa áhyggjur af ljótum grenitrjám. Vorið í ár er engin undantekning enda eru grenitré víða ljót, með brúnar nálar eða hafa jafnvel misst hluta nála sinna, sérstaklega á Suður- og Suðvesturlandi.

Hér eru á ferðinni afleiðingar sitkalúsar (Elatobium abietinum) sem herjaði nokkuð grimmt á grenitré vorið 2013 og fyrri part sumars. Strax um vorið mátti sjá merki um sitkalús á stöku trjám á höfuðborgarsvæðinu og þeim fjölgaði þar til tré hófu vöxt. Áframhald varð á fjölgun síðastliðið haust, en í vetur virðist sem megnið af lúsinni hafi drepist.

Þrátt fyrir að lús drepi sjaldnast tré, getur hún hægt verulega á vexti þeirra, auk þess sem tré sem verða illa fyrir barðinu á lúsinni eru sjaldnast augnayndi. Eitt helsta vopnið hingað til hefur verið að láta eitra fyrir lúsinni. Eitrun hefur hins vegar mikil áhrif á umhverfið, ekki síst á þær lífverur sem lifa á sitkalús, og ætti að nota sem minnst. Þá eru grenitré mikilvæg í borgarlandslaginu, ekki síst sem hljóðskermar, auk þess sem trén eru virk í að draga úr svifryksmengun. Því má velta því fyrir sér hvort ekki væri rétt að eitra fyrir sitkalús á völdum stöðum í borginni, t.d. með fram Miklubraut þar sem tré þurfa auk lúsarinnar að þola talsverða mengun. Nauðsynlegt er þó að eitra einungis ef fullvissa er fyrir því að skaðvaldurinn sé til staðar, þar sem eitrið þarf að komast í snertingu við lúsina til að virka. Í mörgum tilfellum getur því verið of seint að grípa til aðgerða þegar bera fer á skemmdum, þar sem skaðvaldurinn er ekki lengur til staðar eins og raunin virðist vera á flestum trjám núna.

Áður en farið er út í róttækar aðgerðir eins og að fella stór grenitré, er rétt að sjá hvernig því mun reiða af í sumar. Í langflestum tilfellum myndast nýir sprotar nú í vor sem munu minnka sjónræn áhrif skemmdanna. Gott er að huga að því að tréð fái nægt vatn, sérstaklega í þurrkatíð, auk þess sem dálítill áburður hjálpar trénu.

Frekari upplýsingar um sitkalús má m.a. finna á heimasíðu Plantwise Knowledge Bank

Texti: Edda Sigurdís Oddsdóttir, Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá.