Grisja þarf vel undir háspennulínum

Mikilvægt er að grisja vel skóg undir háspennulínum eins og sést vel á meðfylgjandi myndbandi sem tekið var í Norefjell í Noregi nýlega. Eftir því sem skógar vaxa upp á Íslandi þarf að huga vel að þessum málum og greinilegt er að trén þurfa ekki að ná upp í línurnar til að skammhlaup geti orðið og kviknað í skóginum. Ef saman fer vindur og  mjög rakt loft, þoka og jafnvel úrkoma getur hætta verið á slíkum atburðum í skógunum okkar líka.

Myndbandið má sjá hér

Þetta myndband gerði Steinar nokkur Midtskogen og bjóst ekki við að þúsundir notenda Youtube-vefsins myndu skoða það og deila á stuttum tíma. Hann segir að þetta sé 132 kílóvolta lína. Í þrálátri þoku með bleytusnjó og vindi hafi mikil ísing hlaðist á línuna þannig að tognaði á vírunum og þeir sigu niður að trjátoppunum. Þennan dag hafi verið kyrrt og allt litið eðlilega út þar til allt í einu hafi kviknað eldur eins og þruma kæmi úr heiðskíru lofti. Þetta var nokkra metra frá skíðagönguspori þar sem Midtskogen hafði verið andartaki áður með fjölskyldunni. Norefjell er vinsælt skíðasvæði í Suðaustur-Noregi, um 90 kílómetrum frá Ósló. Þess má geta að Íslendingafélagið í Noregi á myndarlegt hús í Norefjell og Íslendingar eru tíðir gestir á skíðasvæðinu.

Íslendingahúsið í Norefjell

Vefur skíðasvæðisins í Norefjell