Asparglytta. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir
Asparglytta. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

„Þetta mun örugglega bara versna hjá okkur,“ segir Brynja Hrafnkelsdóttir, meindýrasérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar. Nýjar tegundir skordýra séu smám saman að dreifast um landið og þetta megi tengja við hækkandi hita.

Rætt var við Brynju í hádegisfréttum Útvarpsins í gær, 18. júlí, og eftirfarandi texti birtist á vef Ríkisútvarpsins í kjölfarið með fyrirsögninni „Sífellt fleiri meindýr valda skaða í skóginum“:

Skaðvaldar í íslenskum skógum eru vaxandi vandamál og sífellt fleiri meindýr leggjast á gróðurinn og valda miklum skemmdum. Lífsskilyrði þessara kvikinda batna sífellt með hlýnandi veðri og óafvitandi dreifum við þeim sjálf um landið því sumar tegundir halda sig helst þar sem mikið er af ferðamönnum.

Það eru fyrst og fremst lirfur fiðrilda og bjöllur sem leggjast á trjágróðurinn. Nokkrar tegundir hafa verið hér lengi og ekki valdið stórskemmdum, en upp á síðkastið hafa nýjar og ágengari tegundir sprottið upp.

Birkikemba og birkiþéla herja á birkiskógana

„Birkikemban er nýr skaðveldur sem fer inn í birkilauf, hún virðist vera að dreifa sér hratt um landið,“ segir Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur hjá Skógræktinni á Mógilsá. „Birkikemban er á vorin, en á haustin tekur ný tegund við sem heitir birkiþéla. Hún er einnig farin að dreifa sér mjög hratt um landið.“ Birkikemba og birkiþéla eru hvor tveggja lirfur sem klekjast út innan í laufblöðum birkitrjánna og eru því nánast ósýnileg kvikindi sem éta laufin innan frá. Blöðin visna og haustlitur færist yfir birkiskóginn þó enn sé mitt sumar. 

Asparglyttan dreifist um landið með fólki

„Svo er það asparglyttan sem er tiltölulega nýr skaðvaldur á Íslandi. Hún er á víði og aspartegundum,“ segir Brynja. „Hún er aðeins að taka við sér, hún virðist hafa þolað illa kuldann á suðvesturhorninu í fyrra. Hún er oft á tjaldsvæðum og getur ferðast með bílum jafnvel. Hún er oft þar sem er mikið af ferðamönnum.“ Asparglytta er bjöllutegund sem byrjar að éta brum og laufblöð aspanna strax á vorin. Lirfa hennar tekur svo við átinu um mitt sumar og étur laufblöðin. Undir haustið tekur svo við ný kynslóð af bjöllum og nagar börk og laufblöð fram í október.

Nýir skaðvaldar finnast og ástandið fer versnandi 

Og allar þessar nýju tegundir eru smám saman að dreifa sér um landið og þessi lirfufaraldur fer versnandi, segir Brynja. „Við getum tengt þetta við hitastig, það hefur náttúrulega hlýnað um eina gráðu á síðustu árum. Og svo eru alltaf að koma nýir skaðvaldar sem kannski hafa ekki getað fjölgað sér fyrr en nú, þegar fer að hlýna.“ Þannig segir hún að þetta sé að verða stærra og stærra vandamál og viðameira verkefni en verið hefur síðustu ár. „Þetta mun örugglega bara versna hjá okkur.“ 

Rifsþélan komin á kreik

Það er ekki bara að birki verði fyrir skaðræðiskvikindum. Rifsberja- og stikilsberjarunnar, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu eru í stórhættu þessa dagana, því rifsþélan er enn komin á kreik, óvættur sem fyrst varð vart í höfuðborginni fyrir tæpum áratug.

Lirfa rifsþélunnar fer eins og logi um akur, þegar hún í hundraða eða þúsundavís leggur til atlögu við rifsið. Þær spæna í sig, á örfáum sólarhringum nánast hvert einasta blað á rifsinu. Greinar og blaðstönglar standa ein eftir og ber, ef einhver eru. Þetta gerist ekki bara einu sinni á sumri, heldur geta rifsberjasultugerðarmenn búist við þremur kynslóðum þessara nýju landnema. Sápa og sítróna, eða bara fingurnir, eru helstu tæki til að vinna á óvininum.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson