Sérfræðingar Mógilsár og Landgræðslunnar fóru í stutta vettvangsferð í Þjórsárdal til að athuga með hentug svæði vegna tilrauna með varnarefni gegn ertuyglu. Auk þess að finna álitleg tilraunasvæði, urðu sérfræðingarnir varir við þó nokkrar skemmdir á lúpínu.

All mikið var um mófetalirfur, sem einkum átu blóm lúpínunnar og því ljóst að mófetinn getur haft mikil áhrif á fræframleiðslu hennar. Þá fundust einnig nokkrar ertuyglulirfur, en um þetta leyti má einmitt búast við því að fyrstu lirfurnar fari að sjást. Ertuyglan hefur valdið talsverðum skemmdum á lúpínu í Þjórsárdal á undanförnum árum og má búast við að hún haldi því áfram í ár.

Þá tóku sérfræðingarnir einnig eftir rótarskemmdum á rótum ungra lúpínuplantna. Skemmdir þessar eru að öllum líkindum af völdum ranabjöllulirfa. Margt virðist benda til þess að lirfurnar leggist á ungar plöntur og valdi því að þær ná sér ekki á strik og dragi þannig úr útbreiðslu lúpínunnar. Þetta, ásamt þurrki og mikilli skordýrabeit undanfarin ár, kann að skýra það að lúpínan á svæðinu er alls staðar fremur gisin.

Það er því ljóst að lúpínan í Þjórsárdal verður fyrir margvíslegum árásum, bæði að ofan og neðan.

frett_06072010_2

Rótarlaus lúpínuplanta. Ranabjöllulirfur hafa nagað rætur lúpínunnar þannig að allt fínrótarkerfið er horfið.


frett_06072010_3

 












Mófetalirfur í blómum lúpínu

 

 











Texti: Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson, Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá

Guðmundur Halldórsson, Landgræðslu ríkisins

Myndir: Edda S. Oddsdóttir