Dagana 28.-31. ágúst var útbreiðsla og skaðsemi trjásjúkdóma og meindýra könnuð.  Leiðangursmenn voru Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Halldór Sverrisson, sjúkdómafræðingur og Guðmundur Halldórsson, skordýrafræðingur sem báðir starfa á Mógilsá.  Samtals var komið við á 43 stöðum á landinu og ástand skóga kannað.  Yfirleitt reyndist heilbrigði trjágróðurs vera þokkalegt.  Munar þar mestu um að birkimaðksfaröldrum sem hafa verið viðvarandi á austan og norðaustanverðu landinu allt frá 1998 er lokið.  Við norðanverðan Breiðafjörð hefur hinsvegar geisað tígulvefarafaraldur fyrr í sumar og eru þar verulegar skemmdir.  Ástand birkis er þó víðast hvar gott, nema töluvert var um birkiryð í Vestur Skaftafellssýslu.  Greni er víðast hvar í sæmilegu ástandi og mun minna reyndist um sitkalús en þegar ástand hennar var athugað fyrr í sumar.  Því standa góðar vonir til að mun minna verði um skemmdir af hennar völdum nú í haust en áður var óttast.  Stafafura er einnig í þokkalegu standi en þó er töluvert um sviðnun á henni á Vesturlandi og sumsstaðar á Suðurlandi.  Lerki er víða óhraustlegt, einkum á Suður- og Vesturland þar sem lerki hefur átt erfitt uppdráttar nú á undanförnum árum.  Austur á Fljótsdalshéraði eru eldri lerkireitir einnig fremur tuskulegir en yngri gróðursetningar líta hinsvegar ágætlega út.  Ösp er víða skemmd eftir haust- og vorfrost og asparryð nú að undanförnu og sumstaðar hafa myndarleg aspartré hreinlega geispað golunni.  Þetta er mjög klónabundið.  Asparryðið virðist hinsvegar hafa mjög hægt á sókninni.  Ætlunin er að heildarniðurstöður þessarar ferðar og annarra slíkra könnunarferða nú í sumar og haust verði teknar saman og gefnar út sem Mógilsárrit.

 

Guðmundur Halldórsson, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir og Halldór Sverrisson