Sigmundur Ernir Rúnarsson ræðir m.a. við Hrein Óskarsson, sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógræktinni, …
Sigmundur Ernir Rúnarsson ræðir m.a. við Hrein Óskarsson, sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógræktinni, í tveggja þátta sjónvarpsröð sinni, Þórsmörk - friðland í 100 ár. Skjámynd af vef Hringbrautar

Hringbraut frumsýnir um þessar mundir tvo þætti um friðun Þórsmerkur og Goðalands í eitt hundrað ár. Í þáttunum er fjallað um ástæður þess að bændur ásamt prestinum í Odda ákváðu að afsala sér beitirétti á Þórsmörk 1920 og Skógræktinni var falið að vernda svæðið og byggja upp gróðurfar þess á ný.

Þáttagerðinni stýrði Sigmundur Ernir Rúnarsson og hann er jafnframt þulur. Í fyrri þættinum, sem frumsýndur var 15. september, ræðir Sigmundur Ernir fyrst við Þórð Tómasson, safnamann í Skógum, sem man hvernig var að smala fé af Þórsmörk á fyrstu áratugunum eftir friðunina. Fram kemur að skógurinn á svæðinu hafi verið orðinn mjög slitróttur og umhverfið allt hefur tekið stórkostlegum breytingum á þeirri öld sem síðan er liðin. Friðaða svæðið hefur verið stækkað niður eftir Krossá og Markarfljóti, inn á land býlisins Stóru-Merkur, á síðasta aldarfjórðungi og er birkið fljótt að taka við sér um leið og beit er aflétt. Talað er við ýmsa fleiri í þættinum, m.a. við Aðalbjörgu Rán Ásgeirsdóttur, bónda í Stóru-Mörk. Hún er afabarn eins bændanna sem friðuðu Þórsmörkina fyrir 100 árum, Árna Sæmundssonar, bónda í Stóru-Mörk. Aðalbjörg segir engan missi að beitilandinu innan landamerkja Stóru-Merkur sem friðað var fyrir áratug enda svæðið stórkostlegt og nægt annað beitiland í boði.

Chas Goemans, verkefnastjóri stígaviðhalds hjá Skógræktinni á Þórsmörk, í spjalli við Sigmund Erni Rúnarsson. Skjámynd úr 1. þættinumMeðal viðmælenda í þættinum er líka Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, sem hefur miklar taugar til Þórsmerkur, ekki aðeins sem eins af þjóðskógunum heldur hefur hann starfað þar mikið að verndarmálum og uppbyggingu gróðurs og aðstöðu fyrir göngufólk og annað ferðafólk. Hreinn er líka einn þeirra sem eiga ættir að rekja til frumkvöðlanna sem tóku það djarfa skref að friða Þórsmörk og óska eftir því við Skógræktina að hún tæki við svæðinu. Úlfar bóndi í Fljótsdal í Fljótshlíð var langafi Hreins.

Sú aðgerð bænda í Fljótshlíð, Landeyjum og undir Eyjafjöllum að afsala sér beitirétti og láta friða Þórsmörk markaði tímamót í náttúruvernd á Íslandi. Síðan hefur verið unnið mikið starf á vegum stofnana, félaga, fyrirtækja og einstaklinga. Þar er fólk sem vinnur störf sín af ástríðu, til dæmis Chas Goemans, verkefnastjóri stígaviðhalds hjá Skógræktinni á Þórsmörk sem á stóran þátt í því þróaða stígakerfi sem byggt hefur verið upp á svæðinu og tekur tillit til vatns- og vindrofs ekki síður en ágangs ferðamnana. Chas segir í þættinum frá starfi sínu með sjálfboðaliðum og fleirum að stígamannvirkjum á Þórsmerkursvæðinu. Á Þórsmörk finnst honum hann eiga heima og lýsir starfi sínu þar sem ástríðu.

Horfa má á fyrri þátt Hringbrautar á vef sjónvarpsstöðvarinnar.

 

Texti: Pétur Halldórsson