Sýnishorn af framsetningu mæligagna með svokölluðu „mælaborði“ Hér sést fjöldi mæliflata sem teknir …
Sýnishorn af framsetningu mæligagna með svokölluðu „mælaborði“ Hér sést fjöldi mæliflata sem teknir voru út í Íslenskri skógarúttekt í sumar

Mælingu á síðustu mæliflötum Íslenskrar skógarúttektar lauk í gær, mánudaginn 29. ágúst. Alls voru teknir út 305 mælifletir þetta árið, þar á meðal 74 jaðarfletir sem settir voru upp til rannsókna á sjálfsáningu trjátegunda.

Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, segir að mælingar sumarsins hafi gengið vel fyrir sig. Mælingateymið og annað starfsfólk loftslagsdeildar rannsóknasviðsins vilji koma á framfæri þökkum til skógar- og landeigenda fyrir alla aðstoð og góð ráð.

Karl Trausti Björnsson við mælingar í sumar. Ljósmynd: Bjarki Þór KjartanssonNýjung þetta árið hjá Íslenskri skógarúttekt var að nú var lögð áhersla á að meta sérstaklega sjálfsáningu trjátegunda út fyrir skóga og bættust alls 74 mælifletir við vegna þess. Skoðað er 24 metra breitt belti utan við allar skráðar gróðursetningar sem heimsóttar eru hverju sinni. Ekki er alltaf víst að útlínur gróðursetninga séu rétt skráðar þannig að stundum er þarna einfaldlega gróðursettur skógur en svo geta þetta líka verið ógróðursett svæði sem tré hafa sáð sér út í. Ef tré reynast vera í þessu 24 metra breiða jaðarbelti er þar settur upp mæliflötur sem þar með er kominn inn í reglubundnar úttektir Íslenskrar skógarúttektar.

Að sögn Bjarka Þórs er markmiðið með þessu mati á jaðarsvæðum skóga annars vegar að fylgjast með nýmyndun skógar og hins vegar eðli og umfangi sjálfsáningar mismunandi trjátegunda. Þetta sé góð aðferð til að kanna tíðni sjálfsáningar út frá skógi, ekki síst hversu algeng og hröð slík sjálfsáning er, hvers kyns land trén sá sér helst í, hvort beit er á slíkum svæðum eða ekki og svo framvegis.

Ekki eru komnar niðurstöður úr þessu mati á jaðarflötum skógarsvæða frekar en úr öðrum gögnum frá sumrinu, segir Bjarki. Fram undan sé úrvinnsla á gögnunum sem safnað var í sumar til að uppfæra skógarhluta loftslagsbókhalds Íslands. Jafnframt er nú unnið að því að bæta upplýsingagjöf og framsetningu talnaefnis og er stefnt að því að setja upp svokölluð mælaborð sem verða gerð aðgengileg á vefnum um ýmsar helstu stærðir sem snerta skóga og skógrækt. Myndin hér að ofan er dæmi um slíka framsetningu og sýnir fjölda mæliflata sem teknir voru út í sumar. Nokkur ár tekur að heimsækja alla mælifleti á landinu en hver mæliflötur er heimsóttur á fimm ára fresti. Að mæliflötur sé „úti“ merkir að á honum séu engin tré, þótt hann sé innan skilgreinds skógarsvæðis eða 24 metra svæðis utan skógarjaðars.

Nánar um Íslenska skógarúttekt

Íslensk skógarúttekt, skammstafað ÍSÚ, er verkefnahópur með það meginmarkmið að safna saman á vísindalegan hátt upplýsingum um skóga og skógrækt á Íslandi. Úr upplýsingunum sem verkefnahópurinn safnar eru unnin gögn í árlega skýrslu Íslands til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og fleiri skýrslur tengda kolefnisbókhaldi skóga og skógræktar svo sem skýrslu matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, um ástand skóga heimsins sem kemur út á 5 ára fresti, Global Forest Resources Assessments. Gögn eru einnig send til skýrslugerðar skógræktarmálaráðherra Evrópulanda um stöðu skóga í Evrópu sem sömuleiðis er gefin út á 5 ára fresti, State of Europe’s Forests 2020 Report. Loks eru gögn úr ÍSÚ notuð í ýmsar erlendar og innlendar skýrslur og greinar fyrir stjórnvöld og almenning.

Texti: Pétur Halldórsson