Sjálboðaliðahópurinn ásamt starfsfólki Skógræktarinnar á fallegum haustdegi í Hallormsstaðaskógi.
Sjálboðaliðahópurinn ásamt starfsfólki Skógræktarinnar á fallegum haustdegi í Hallormsstaðaskógi.

Undanfarinn hálfan mánuð hafa níu ung­menni frá sjálfboðaliðasamtökunum SEEDS unnið sjálfboðavinnu við endurbætur á göngu­leið í Hallormsstaðaskógi.

Ungmennin eru frá átta Evrópulöndum. Þau unnu við viðgerð og betrumbætur á 2 km gönguleið sem liggur upp í fjallið á Hall­orms­stað, ofan við hótelið í skóginum. Gönguleiðin er mjög mikið notuð af erlend­um gestum hótelsins og öðrum gestum skógarins. I brattlendi verða gönguleiðir fljótt hálar á sumum stöðum. Var því orðið mjög brýnt að lagfæra leiðina og auka þar með öryggi gesta.

Þetta er annað árið sem sjálboðaliðar frá SEEDS-samtökunum starfa við betrumbætur á gönguleiðum í Hallorms­staða­skógi. Hópar þessir njóta verkstjórnar  reynslumikils starfsfólks Skógræktarinnar á Hallormsstað.


Að sjálfsögðu er notað heimafengið timbur úr skóginum
til að útbúa flotbrýr yfir mýrar og tröppur á bröttum stöðum.


Mannvirki sem þetta koma í veg fyrir gróðurskemmdir og greiða för göngufólks.


Leitast er við að fella mannvirkin sem best inn í landslagið.

Myndarlegar tröppur sem liggja eftir landslaginu í skóginum.


Texti og myndir: Þór Þorfinnsson