Jafna þurfti kanta við nýju stígana hjá Hjálparfossi áður en gróðurtorfur voru lagðar yfir
Jafna þurfti kanta við nýju stígana hjá Hjálparfossi áður en gróðurtorfur voru lagðar yfir

Þórsmörk Trail Volunteers með sitt fyrsta verkefni við Hjálparfoss

Sjálfboðaliðar frá samtökunum Þórsmörk Trail Volunteers eru meðal vorboðanna ár hvert og undanfarna daga hefur fyrsti sjálfboðaliðahópur sumarsins verið að störfum við Hjálparfoss í Þjórsárdal. Fram undan eru viðhalds- og uppbyggingarverkefni á Þórsmörk og Laugaveginum, gönguleiðinni upp í Landmannalaugar.

Með hratt vaxandi ferðamannastraumi hefur álag aukist mjög á ýmsa viðkvæma ferðamannastaði og er Hjálparfoss í Þjórsárdal gott dæmi um það. Ástand svæðisins hafði versnað mjög undanfarin ár og fengust styrkir frá ríkisstjórn Íslands síðasta vor til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum. Á liðnu hausti var ráðist í miklar endurbætur, stígar endurbættir, smíðaðar tröppur og pallar. Verkefnið var unnið í góðu samstarfi við Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Eftir slíkar framkvæmdir er nauðsynlegt að huga að gróðri og laga rask. Fyrsti sjálfboðaliðahópur Þórsmörk Trail Volunteers í sumar hefur unnið við það undanfarna daga að leggja gróðurtorfur með fram stígum við Hjálparfoss, græða upp eldri stíga, sá í jaðra og dreifa áburði til að flýta því að sárin grói. Einnig var gert við borð og ýmsu öðru viðhaldi á svæðinu sinnt. Chas Goemans, verkefnisstjóri stígagerðar á Þórsmörk, hælir verktakanum sem nýlega lauk framkvæmdum við Hjálparfoss og segir nýju aðstöðuna vel heppnaða.

Þetta var í fyrsta sinn sem Þórsmörk Trail Volunteers fóru til verkefna utan Þórsmerkur, Goðalands og Laugavegarins frá því að starfsemi þeirra hófst fyrir þremur árum. Hópurinn hefur nú þegar lent í ýmsum ævintýrum enda allra veðra von á þessum árstíma þótt sumarið eigi að heita komið samkvæmt almanakinu. Þau hafa sýnt harðræði við vinnu í kuldanum og stóðu sig vel við að moka bílinn upp úr snjósköflum þegar farið var upp í Þórsmörk og Goðaland í síðustu viku.

Chas Goemans, starfsmaður Skógræktar ríkisins og verkefnisstjóri stígagerðar á Þórsmörk, segir að ætlunin hafi verið að byrja snemma á Þórsmerkursvæðinu en það hafi ekki reynst hægt vegna snjóa. Því hafi fyrsta hópi sumarsins verið stefnt að Hjálparfossi til að nýta mannskapinn. Í þessum fyrsta hópi í sumar eru sjálfboðaliðar frá Englandi og Wales. þar sem verktaki lauk vinnu sinni fyrir nokkru við stígagerð og smíði á tröppum og pöllum.

Í sumar teygja Þórsmörk Trail Volunteers sig lengra norður eftir Laugaveginum en áður hefur verið gert. Nýtt verkefni hefur verið skipulagt í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Settar verða upp búðir í Hvanngili um 30 kílómetrum norðan við aðalbækistöðvarnar í Langadal. Sjálfboðaliðarnir sem þar verða fá fyrst þjálfun í Þórsmörk og læra þar handtökin við tröppusmíði, rofvarnir og annað sem að stígagerð og stígaviðhaldi lýtur. Síðan flytjast þeir upp í nýju búðirnar í Hvanngili. Á því svæði hafa orðið miklar skemmdir á Laugaveginum og bráðnauðsynlegt að ráðast í úrbætur til að hindra enn meiri skemmdir. Aðaláherslan verður lögð á stígagerð og lagfæringar á frárennsli. Leysingavatn sverfur úr stígunum og slíkt rof er fljótt að aukast ef ekki er brugðist við. Verkefnin á svæðinu við Hvanngil verða unnin um miðbik sumarsins.

Þórsmörk Trail Volunteers vilja koma þakklæti á framfæri við Kynnisferðir sem styðja verkefni þeirra myndarlega með því að sjá um akstur með sjálfboðaliðahópana í sumar.

Myndirnar sem hér fylgja tók Chas Goemans og við látum líka fylgja hér að neðan myndir sem hann tók á Þórsmörk og Goðalandi í síðustu viku. Enn er nokkur snjór á svæðinu og varla er hann á förum í hretinu sem gengur yfir þessa dagana. Við bíðum þess að hlýni á ný.

Í Básum. Valahnúkur fjær vinstra megin og Langidalur á Þórsmörk fyrir miðri mynd
handan Krossár.


Vor í Langadal á Þórsmörk. Skagfjörðsskáli Ferðafélags Íslands
í bakgrunni hægra megin.">

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Chas Goemans