Í síðustu viku sóttu Ása Erlingsdóttir og Margrét Eðvarsdóttir fjögurra landa samráðsfund á Skógarfræðslusetrinu á Hamar um útgáfu á námsefni um sjálfbærni í skógartengdu útinámi.

Um er að ræða fjögurra landa NORDplus-verkefni sem Ísland, Noregur, Eistland og Lettland eru þátttakendur í. Verkefnið hefur þann tilgang að þróa og gefa út kennsluefni fyrir grunnskóla um sjálfbærni í skógartengdu útinámi. Verkefnið nýtur leiðsagnar PEARL-samtakanna á BIRI en þau beita sér fyrir eflingu á sjálfbærni á alþjóðavísu. Fulltrúi samtakanna hér á landi Sjöfn Guðmundsdóttir, kennari í Menntaskólanum við Sund, sótti einnig fundinn. Nokkrir skólar hér á landi tóku þátt í verkefninu eftir að haldið var námskeið í vetur undir stjórn Norðmanna.

Margrét og Ása kynntu afrakstur íslenska starfsins og virtist sem sumt af því sem gert var hér vera framsækið og til fyrirmyndar þegar litið er til útfærslu verkefna nemenda í skógarútináminu og nálgunar almennt við skipulag þess, samættingu og vinnulag. Anna Lena, verkefnisstjóri hjá Norðmönnum, vildi koma á framfæri sérstöku þakklæti til Ásu og Margrétar fyrir góða framsetningu á efninu og vel unnin verkefni á vettvangi skógarnámsins. Nú verður hafist handa við að undirbúa námsefnið fyrir útgáfu á alþjóða vísu.

Texti: Ólafur Oddsson
Mynd: Anna Lena