Seinni part veturs fór að bera á nokkrum skemmdum á grenitrjám af völdum sitkalúsar. Á höfuðborgarsvæðinu má sjá verulegar skemmdir, t.d. í Breiðholtinu, undir Úlfarsfelli og meðfram Miklubraut. Þær skemmdir sem eru að koma fram núna eru líklega afleiðingar plágu fyrri part vetrar, enda var veturinn mildur og gerði því lítinn usla í sitkalúsarstofninum. Nánari athugun hefur leitt í ljós að töluvert er af sitkalús á trjám og er því talsverð hætta á sitkalúsarplágu nú í vor og haust.

Í vikunni fóru sérfræðingar Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá og Landgræðslu ríkisins í stutta könnunarferð. Skoðaðir voru grenireitir á Kjalarnesi, í Hvalfirði, Skorradal, Borgarnesi og við Grundartanga. Er skemmst frá því að segja að víða sáust skemmd tré og lifandi sitkalús var algeng á flestum stöðum. Var þó talsverður munur milli trjáa, enda þekkt að einstök tré eru misnæm fyrir lúsinni.

Það er því ljóst að á öllum svæðum sem skoðuð voru er hætta á sitkalúsarplágu í vor eða haust. Sjaldgæft er að sitkalús drepi tré, en hún spillir útliti þeirra. Því er ástæðulaust að verja heila lundi. Hafi garðeigendur áhyggjur af sitkalús í einstökum trjám skal athuga hvort þar er lús að finna og ef svo er skal úða tréið, t.d. með permasect, sem fyrst. Þetta skal gera í þurru og sólarlitlu veðri. Þess ber að gæta að virkni efnisins er lítil ef hiti er undir 5°C.

frett_19042010_2


Við Fossá í Hvalfirði. Greinilegur munur sést á skemmdum milli einstaka trjáa.


frett_19042010_3Frá Reynivöllum í Kjós. Græn, lifandi sitkalús neðan á nál sitkagrenis. Greinilega sést hvernig nálin er farin að skemmast. Á brúnu nálunum í kring má sjá svartar, dauðar lýs.


frett_19042010_4Greinar af sitkagreni, við Kiðafell í Kjósfrett_19042010_5


Illa farið tré af völdum sitkalúsar við Kiðafell í KjósTexti og myndir: Edda S. Oddsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá