Talsvert hefur borið á skemmdum á grenitrjám í ár, sérstaklega á Suðvesturlandi. Þannig má sjá þó nokkrar skemmdir á trjám meðfram Miklubraut í Reykjavík. Sökudólgurinn er trjáræktarfólki kunnugur, sitkalús (Elatobium abietinum).

Strax í vor mátti sjá merki um sitkalús á stöku trjám á höfuðborgarsvæðinu sem benti til þess að gera mætti ráð fyrir faraldri nú í haust. Hérlendis er það einkum vetrarkuldi sem virðist stjórna stofnstærð sitkalúsar en til að slá verulega á fjölda lúsa þarf kaldara veðurfar en -15° í nokkra daga. Frost virðist hins vegar ekki hafa mikil áhrif á ungviði lúsanna og því eru alltaf einhverjar lýs sem lifa af frosthörkur. Í kjölfar mildra vetra getur sitkalús náð sér á strik og valdið nokkrum skemmdum á trjám að vori til. Á meðan trén eru í vexti dregur hins vegar úr ágangi lúsar en á haustin verður hennar vart aftur. Í ár mátti þó sjá að lúsin lagðist einnig á nýja árssprota á stöku trjám sem er óvenjulegt.

Þrátt fyrir að lús drepi sjaldnast tré getur hún hægt verulega á vexti trjáa, auk þess sem tré sem verða illa fyrir barðinu á lúsinni eru sjaldnast augnayndi. Eitt helsta vopnið hingað til hefur verið að láta eitra fyrir lúsinni. Eitrun hefur hins vegar mikil áhrif á umhverfið, ekki síst þær lífverur sem lifa á sitkalús, og ætti að nota sem minnst. Hins vegar þá eru grenitré mikilvæg í borgarlandslaginu, ekki síst sem hljóðmön, auk þess sem trén eru virk í að draga úr svifmengun. Því má velta því fyrir sér hvort ekki væri rétt að eitra fyrir sitkalús á völdum stöðum í borginni. Nauðsynlegt er hins vegar að eitra einungis sé fullvissa fyrir því að skaðvaldurinn sé til staðar, þar sem eitrið þarf að komast í snertingu við lúsina til að virka. Í mörgum tilfellum getur því verið of seint að grípa til aðgerða þegar bera fer á skemmdum, þar sem skaðvaldurinn er ekki lengur til staðar.

 

Texti: Edda Sigurdís Oddsdóttir
Myndir: Edda Sigurdís Oddsdóttir og Halldór Sverrisson