#Vesturameríkuskógar2013

Tegund með langt og mjótt útbreiðslusvæði

Íslenskt skógræktarfólk þekkir sitkagreni vel, enda besta grenið við íslenskar aðstæður og ein mest gróðursetta trjátegund á landinu. Sitkagrenið okkar er frá norðurhluta útbreiðslusvæðis tegundarinnar í Alaska, en útbreiðslan er reyndar mjög sérstök. Sitkagreni vex á mjóu belti með fram ströndinni frá rúmlega sextugustu breiddargráðu í Alaska til fertugustu breiddargráðu í norðanverðri Kaliforníu. Í Evrópu samsvarar það strandlengjunni frá Bergen til Lissabon og loftslagsmunur svipaður, eða frá norrænum barrskógi í norðri til miðjarðarhafsloftslags í suðri.

Syðst á útbreiðslusvæði sínu vex sitkagrenið á mjóu belti og jafnvel ofan í fjöruÞað var því forvitnilegt fyrir íslenskt skógræktarfólk að hitta fyrir sitkagreni í syðsta hluta útbreiðslunnar. Þar vex það á örmjóu belti með ströndinni, jafnvel niðri í fjöru. Það myndar þétta skóga ofan á sjávarhömrum sem verða mjög hávaxnir strax og komið er um 20 metra frá klettabrúninni. Þegar komið er hálfan kílómetra frá ströndinni eru greniskógarnir blandaðir degli og risalífviði en líka strandrauðviði á stöku stað. Þegar komið er kílómetra frá ströndinni sést ekki lengur sitkagreni í skógunum en degli orðið allsráðandi víðast hvar.

Útbreiðslusvæði sitkagrenis er æði sérstætt, langt og mjótt og loftslagið allt frá því að vera eins og í norrænum barrskógi og til Miðjarðarhafsloftslags

Á stöku stað mátti enn sjá gömul sitkagrenitré og þau voru risastór. Svipurinn var þó mjög kunnuglegur, nálar, börkur og krónubygging eins og á íslensku sitkagreni. Það var því skemmtilega heimilislegt að koma í sitkagreniskógana í Kaliforníu og Oregon.  

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Kvikmyndataka: Hlynur Gauti Sigurðsson
Samsetning: Kolbrún Guðmundsdóttir
Fréttin var uppfærð 26.10.2021

 

 

Hér er samanburðurinn við mannfólkið greinilegur