Skógurinn á Mógilsá tekur vel við sér í veðurblíðunni

Sifjarlykill breiðist nú út um skógarbotninn í skóginum á Mógilsá í Kollafirði. Þar er allt orðið iðjagrænt og skógurinn í fullum blóma. Skógurinn við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá í Kollafirði er náttúruperla sem vert er að gefa gaum að. Í skóginum vex fjöldi trjátegunda, meðal annars tegundir sem ekki eru allt of algengar í íslenskum skógum.  

Skógurinn er einna mestur í kringum Rannsóknastöðina. Þetta er í raun trjásafn með tegundum víða að úr heiminum. Í skóginum eru m.a. fágætar tegundir eins og linditré, broddhlynur og risalerki, svo eitthvað sé nefnt, en merkt eintök eru af flestum trjátegundanna í safninu.

Á Mógilsá er líka fjölbreytilegt fuglalíf á vorin og í byrjun sumars, enda koma margir flækingar við á Mógilsá. Landslag í undirhlíðum Esju er skemmtilegt, með hólum, giljum og lækjum. Stíganetið á Mógilsá tengist Esjustígum. Minni stígarnir eru tilvalið tilbrigði við hefðbundna Esjugöngu; styttri Esjuganga í sjálfu sér.

Nú er allt orðið iðjagrænt á Mógilsá og skógurinn í fullum blóma að sögn Aðalsteins Sigurgeirssonar forstöðumanns. Veðrið hefur líka leikið við landsmenn í maímánuði með litlum undantekningum. Eitt af því sem gleður augað á Mógilsá þessa dagana er jurtin sifjarlykill (Primula veris) sem er farin að mynda samfellt blómahaf víða í skógarbotninum og breiðist út. Í ættarheitinu Primula felst merkingin ,fyrstur' enda blómstra prímúlur snemma vors eða sumars. Sifjarlykill er fagur og kærkominn nýbúi í íslenskum skógum. Meðfylgjandi myndir tók Aðalsteinn Sigurgeirsson í skóginum á Mógilsá nú í vikunni.