Nýtist vel með grisjunarvélinni

Kristján Már Magnússon skógverktaki hefur keypt til landsins sérhæfða timburútkeyrsluvél. Vélin er af gerðinni Gremo og var flutt inn notuð frá Svíþjóð. Þetta er ekki fyrsta útkeyrsluvélin í landinu því fyrir eru nokkrir timburvagnar og lítil útkeyrsluvél af gerðinni Alstor. Gremo-vélin er hins vegar sú stærsta sem hingað til hefur verið í notkun hérlendis. 

Sem kunnugt er keypti Kristján til landsins Gremo-grisjunarvél á síðasta ári og verður útkeyrsluvélin notuð samhliða henni við grisjunarverk í stærri skógum vítt og breitt um landið. Grisjunarvélin hefur margsannað gildi sitt frá því hún kom til landsins fyrir tæpu ári. Hins vegar hefur komið berlega í ljós að útkeyrsla með dráttarvélum og timburvögnum er erfitt og seinlegt verk auk þess sem dráttarvélarnar henta illa í miklum bratta eða mjög ósléttu landi, hvað þá snjóþyngslum. Fátt stöðvar hins vegar sérhæfða liðstýrða útkeyrsluvél  á belgmiklum hjólbörðum auk þess sem slíkar vélar fara betur með skógana en ósérhæfðar vélar. Því má segja að hér hafi enn eitt framfaraskrefið í nýtingu skóga á Íslandi verið stigið.

Skrafað á vélamáli. Kristján Már Magnússon verktaki lengst til vinstri og
Hlynur Gauti Sigurðsson hjá Héraðs- og Austurlandsskógum lengst til hægri.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þröstur Eysteinsson