Aukið samstarf og aukið fjármagn

Norræna ráðherranefndin hefur sent frá sér árangursskýrslu um þá vinnu sem unnin var í kjölfar Selfossyfirlýsingarinnar frá 2008 um sjálfbæra skógrækt. Svör við spurningum sem lagðar voru fyrir starfsfólk ráðherranefndarinnar sýna að samstarf á þessu sviði hefur aukist milli Norðurlandanna og við nágrannaríki eins og Eystrasaltslöndin.

Í skógrækt, líkt og öllum öðrum greinum, skiptir miklu máli að hafa framtíðarsýn og markmið. Með Selfoss-yfirlýsingunni gáfu norrænir skógarmálaráðherrar tóninn fyrir áherslur innan norræna skógargeirans. Í kjölfarið var lögð talsverð vinna í að skilgreina hvernig fulltrúar skógræktar, sem starfa innan norrænu ráðherranefndarinnar (NMR), gætu sem best stuðlað að því að áherslur ráðherranna næðu fram.

Selfossyfirlýsingin var afgreidd á fundi norrænna skógarráðherra sem haldinn var á Selfossi í ágúst 2008. Yfirlýsingin tekur á hlutverki skóga við að tempra vatnshringrásina og tryggja hreint vatn. Þar er einnig fjallað um orkuskóga og að sjá verði til þess að skógar geti útvegað eldsneyti án þess að öðrum gæðum og gildum skóganna sé fórnað. Þeir hafi líka hlutverk í baráttunni við loftslagsbreytingar en skógana verði líka að búa undir þær breytingar og þar sé rannsókna þörf. Erfðatæknin geti hjálpað til við að flýta aðlögun skóganna og skipulagningu skógræktar við breyttar aðstæður. Hekluskógar eru nefndir í yfirlýsingunni sem lærdómsríkt dæmi um hvernig beita megi skógrækt við uppgræðslu lands og í yfirlýsingunni er sérstök áhersla lögð á rannsóknir sem forsendu góðs árangurs í skógrækt. Án þeirra yrði stöðnun og afturför.

Árið 2010 var gefin út skýrsla, Implementing the Selfoss Declaration – Recommendations to Nordic forestry, þar sem sett voru fram tilmæli til skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar um hvernig hægt væri að framfylgja þeirri sýn ráðherranna sem birtist í yfirlýsingu þeirra frá 2008.

Fyrr á þessu ári var svo sendur út spurningarlisti til starfsfólks ráðherranefndarinnar sem beðið var að greina frá því hvernig til hefði tekist og hvaða verkefni hefðu verið unnin út frá yfirlýsingunni. Niðurstöðurnar eru birtar í nýrri árangursskýrslu sem kom út í röðinni Tema Nord. Ritstjóri skýrslunnar og verkefnisstjóri er Edda Sigurdís Oddsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá.

Svörin við spurningalistanum leiddu í ljós að meira en 20 mismunandi verkefni sem tengdust yfirlýsingunni höfðu notið styrks frá norrænu ráðherranefndinni. Flest voru rannsóknarverkefni eða samstarfsnet en einnig voru styrktir vinnufundir, ráðstefnur, skýrslur, og vefsíður. Þá virtist sá skýri pólitíski vilji sem settur var fram í yfirlýsingunni 2008 hafa skilað sér í auknu fjármagni einstakra deilda, auknu skógamálasamstarfi milli norrænu landanna og ekki síður við nágrannaríki, t.d. Eystrasaltslöndin. Starfsfólk NMR virtist yfirleitt ánægt með yfirlýsinguna og þá vinnu sem unnin hafði verið í kjölfarið enda ýtti hún undir verkefni sem samræmdust þeirri framtíðarsýn sem ráðherrarnir settu fram í yfirlýsingunni.

Texti: Edda S. Oddsdóttir og Pétur Halldórsson
Mynd: Pétur Halldórsson