Rúmlega tuttugu skógarbændur komu á samráðsfund Skógræktarinnar og Félags skógarbænda á Vesturlandi …
Rúmlega tuttugu skógarbændur komu á samráðsfund Skógræktarinnar og Félags skógarbænda á Vesturlandi sem haldinn var í Borgarnesi. Fundurinn er sá fyrsti í röð slíkra funda sem haldnir verða með skógarbændafélögum í öllum landshlutum. Ljósmynd: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Skógræktin heldur um þessar mundir samráðsfundi með félögum skógarbænda í öllum landshlutum. Tilefnið er væntanleg aukning framlaga til kolefnisbindingar með skógrækt ía aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Hugur var í skógarbændum á fyrsta fundinum sem haldinn var í Borgarnesi í gær.

Ríflega 20 skógarbændur af Vesturlandi komu á fundinn í Borgarnesi sem þóttist takast mjög vel. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri fór yfir málin og kynnti þá nýju stöðu sem er komin upp og möguleikana sem eru að skapast. Rætt var um hvernig skógargændur koma inn í þá mynd.

Þröstur fór í stórum dráttum yfir þau framlög sem gert er ráð fyrir til kolefnisbindingar með skógrækt til kolefnisbindingar næstu fimm ár og hvernig þau fara stigvaxandi. Hann setti fram grófa áætlun um hvernig þessi auknu framlög gætu birst í auknum fjölda gróðursettra trjáplantna sem gæti vaxið upp í allt að 10-12 milljónir trjáplantna ef allt gengi eftir.

Fundarfólk velti fyrir sér ýmsum úrlausnarefnum sem fást þyrfti við í þessari aukningu sem fram undan er. Finna þyrfti leiðir til að hægt yrði að gróðursetja meira, hvort sem það yrði með verktakahópum eða með öðrum leiðum. Sumir höfðu áhyggjur af því að ætlunin væri að rækta aðallega birki en það var leiðrétt á fundinum og útskýrt að sú aukning birkigróðursetningar sem tilkynnt hefur verið um að verði á næsta ári hafi helgast af þeim litla fyrirvara sem var til undirbúnings aukningar fyrir næsta ár. Fljótlegast og auðveldast hafi verið að ráðast í aukna birkirækt en í framhaldinu myndi aukningin felast í hefðbundinni nytjaskógrækt og sérstökum kolefnisbindingarverkefnum, til dæmis á löndum skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Fundir með skógarbændafélögum í öðrum landshlutum verða sem hér segir:

  • 18. október kl. 16-18 á Hótel Héraði Egilsstöðum
  • 24. október kl. 15-17 á Hótel Natura Svalbarðsströnd við Eyjafjörð
  • 30. október kl. 15-17 á Hótel Selfossi
  • 1. nóvember kl. 15-17 á Hótel Ísafirði
Texti: Pétur Halldórsson