Mynd: arskoga2011.is
Mynd: arskoga2011.is
Í tilefni af Alþjóðlegu ári skóga er efnt til samkeppni um duftker úr íslenskum viði. Á vefsíðu Alþjóðlegs árs skóga segir:

Æ fleiri Íslendingar velja bálför sem útfararform. Í kjölfarið eykst eftirspurn eftir fallegum og umhverfisvænum, helst íslenskum, duftkerjum. Íslenski viðurinn er sérlega vistvænn og að margra mati einstaklega viðeigandi sem umgjörð um síðustu jarðnesk ummerki okkar. „Af jörðu ertu komin og að jörðu skaltu aftur verða” fylgir okkur síðustu ferðina. Íslenski viðurinn vex af íslenskri jörð, hinsta hvílustað Íslendinga og nærir komandi kynslóðir.

Samkeppnin um duftker úr íslenskum við er öllum opin og reglurnar ákaflega einfaldar.

1. Allir geta tekið þátt, útlitið er algjörlega frjálst og neðangreindar stærðir eru einungis til viðmiðunar. Eina skilyrðið er að duftkerfið sé gert úr íslenskum við. Kerin má mála með vistvænni málningu eða skila inn ómáluðum.

2. Stærðir duftkerja til viðmiðunar: Fósturker eru ca. 5 cm á hæð og 7 cm á breidd.  Barnaker eru 17 cm há og 14 cm á breidd.  Hámarksstærð fyrir fullorðna væri 25 cm hæð og 18 cm á breidd.

3. Skila skal inn frumgerð af duftkeri fyrir 15. október, 2011. Nánar verður tilkynnt um skilastað á heimasíðunni arskoga2011.is. Tekið verður á móti duftkerjum á tímabilinu 10.-14. október.

4. Dómnefnd er skipuð þremur valinkunnum einstaklingum og mun dómnefnd meta öll innsend ker.

5. Úrslit verða tilkynnt um miðjan nóvember í tengslum við sérstaka skógarviku.

6. Veitt verða þrenn peningaverðlaun: 1. verðlaun eru 250.000 kr., 2. verðlaun eru 100.000 kr. og 3. verðlaun eru 50.000 kr. Að auki verða verðlaunagripirnir að sjálfsögðu kynntir á vef verkefnisins og hjá samstarfsaðilum.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Guðmundsdóttir í síma 893-2789.

Mynd og texti: Vefsíða Alþjóðlegs árs skóga