María E. Ingvadóttir, stjórnarformaður Kvistabæjar, Aldís Björk Sigurðardóttir ræktunarstjóri og Hól…
María E. Ingvadóttir, stjórnarformaður Kvistabæjar, Aldís Björk Sigurðardóttir ræktunarstjóri og Hólmfríður Geirsdóttir í Kvistum fylgjast með Valgerði Jónsdóttur og Hraundísi Guðmundsdóttur mæla sýnishorn af plöntum úr útireitum Kvistabæjar í Reykholti Biskupstungum. Ljósmynd: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Gæðaúttektir á skógarplöntum eru fastur liður í starfi Skógræktarinnar á vormánuðum. Fulltrúar Skógræktarinnar sem sjá um gæðamálin voru á ferð í gróðrarstöðinni Kvistabæ í Reykholti Biskupstungum á dögunum þar sem nýir eigendur eru að taka við rekstri skógarplöntuframleiðslu Gróðrarstöðvarinnar Kvista.

Nú í vor hafa Hraundís Jónsdóttir skógræktarráðgjafi og Valgerður Jónsdóttir, verkefnisstjóri fjölgunarefnis, farið í gróðrarstöðvar til að taka út plöntugæðin. Þetta er gert á hverjum stað fyrir sig en auk þess eru plöntur sendar í svokallað RGC-próf sem Rakel Jónsdóttir sérfræðingur sér um í starfstöð Skógræktarinnar á Akureyri. Þar eru plöntur keyrðar af stað við stýrðar aðstæður svo skoða megi almennt ástand þeirra og heilbrigði, líf í brumum, mögulegar kalskemmdir, ástand róta og fleira.

Þetta gæðastarf er liður í að bæta starf Skógræktarinnar enn meir. Til að gæta samræmis er lögð áhersla á að sama fagfólkið sjái um þessar úttektir frá ári til árs og hafa þær Hraundís og Valgerður það hlutverk með höndum. Samfellt gæðastarf er mikilvægt til að tryggja megi gæði þeirra ungplantna sem notaðar eru í skógrækt.

Í síðustu viku slóst Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni, í för með þeim Hraundísi og Valgerði á Suðurland. Jafnframt því að taka út plöntur funduðu þær með nokkrum af nýjum eigendum skógarplöntuframleiðsla Kvista sem nú hefur fengið nýtt nafn og heitir Kvistabær.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Hraundísi og Valgerði skoða plöntur og með þeim á myndunum eru María Ingvadóttir sem er stjórnarformaður Kvistabæjar, Aldís Björk Sigurðardóttir, ræktunarstjóri í Kvistabæ og Hólmfríður Geirsdóttir Kvistum. Þá er þarna mynd af þeim Maríu, Aldísi og Ágústi Sindra Karlssyni sem er einn hluthafinn. Þá er þarna mynd tekin úr gróuðrhúsi á Kvistum af stafafuru sem sáð var til í vor og verður til afhendingar næsta vor.

Heimild og myndir: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir
Texti: Pétur Halldórsson