Út er komið níunda Rit Mógilsár sem ber heitið ,,Úttekt á gróðursetningum á 18 jörðum innan Héraðsskóga. Úttekt gerð 1999" og er 18 síður.  Ritið fjallar um úttektir sem gerðar voru á 18 jörðum innan Héraðsskógaverkefnisins og er eftir Jón G. Guðmundsson, skógfræðing.

Sumarið 1999 voru kannaðar allar gróðursetningar á þeim 18 jörðum sem hvað lengst hafa tekið þátt í Héraðsskógaverkefninu. Markmið úttektarinnar var að kanna hvernig hefði tekist til með gróðursetningar, og athuga hvort einhverju þyrfti að breyta varðandi framkvæmdir. Jarðirnar 18 eru í fjórum hreppum innan Héraðs, í Fellahreppi, Fljótsdal, Völlum og Eiðahreppi. Töluverður munur reyndist á þéttleika gróðursetninga milli hreppa og milli gróðurhverfa, en ekki tókst að greina mun á milli reita semvoru herfaðir eða plægðir og reita sem voru óhreyfðir. Árangur í mólendi var yfirleitt góður, en gróðursetning í graslendi kom áberandi illa út. Veðurskaðar voru áberandi í Fellahreppi og á öðrum einstaka stöðum.