Út er komið nýtt hefti í ritröðinni Rit Mógilsár. Heftið er eftir Arnór Snorrason, sérfræðing á Mógilsá og heitir Mat á kolefnisbindingu og arðsemi nýskógræktar á fjórum svæðum Skógræktar ríkisins. Ritið er ókeypis og fæst hér á skogur.is. Þeir sem kjósa að fá senda prentaða útgáfu ritsins geta snúið sér til Eddu S. Oddsdóttur á Mógilsá (edda@skogur.is eða 892-4503).

Í ritinu er kynnt spá um kolefnisbindingu nýskógræktar og arðsemi hennar á fjórum svæðum í eigu Skógræktar ríkisins. Kolefnisforðaferlar, sem voru gerðir út frá fyrirliggjandi gögnum sem safnað var um síðustu aldamót vegna vinnu við úttekt á skógræktarskilyrðum, voru nýttir til að gróskuflokka þær trjátegundir sem á að gróðursetja á þessum svæðum. Gróskuflokkar fyrir hvert svæði voru síðan ákvarðaðir eftir grósku skógarreita sem mældir voru í úttekt á skógræktar-skilyrðum á eða í næsta nágrenni við áformuð skógræktarsvæði.

Munur var á metinni grósku milli svæðanna, fyrir stafafuru var t.d. árleg meðal binding CO2 á 50 árum fyrir þann stað með lökustu gróskuna 4,2 tonn á ha. en þar sem gróskan var mest 6,5 tonn. Munur á milli trjátegunda var mun meiri, t.d. var meðalsársbinding birkis 2,5 tonn CO2 en hjá alaskaösp 8,0 tonn í lakaska gróskuflokki. Þannig getur trjátegund skipt mun meira máli en svæðaval þegar gerður er samanburður á þessum fjórum stöðum.

Meðalársbinding CO2 var metin um 4.400 tonn á öllum fjórum svæðunum. Bindingin mun samt ekki ná hámarki fyrr en á árabilinu 2043-2052 og verður þá að meðaltali um 8.000 tonn CO2.

Þeir kostnaðarliðir sem taldir eru með í stofnkostnaði og stærðarhagkvæmni hafa áhrif á meðaltals stofnkostnað á flatareiningu sem liggur á bilinu 239 til 374 þús. kr. á ha. Aftur á móti hefur stofnkostnaður á flatareiningu minni áhrif á arðsemi kolefnisbindingar en þreföldun á verði á hverju bundnu tonni af kolefni. Þannig var mestur munur á arðsemi milli svæða 3,8% en á milli verðflokka á bundnu kolefni 5,9%.

Vinna sem liggur að baki ritsins er unnin að beiðni Landsvirkjunar, en verið er að kanna möguleika á því að stofnunin fjármagni nýskógrækt á völdum svæðum á löndum Skógræktar ríkisins og geti á móti talið sér til tekna kolefnisbindingu sem á sér staði í 50 ár eftir gróðursetningu.

 

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir
Texti: Edda S. Oddsdóttir