#Vesturameríkuskógar2013

Þegar sagt var í þriðja skiptið; „Nei, hættu nú alveg. Þetta er stærsta fura sem ég hef nokkru sinni séð“, þá var ekki um gulfuru að ræða heldur sykurfuru, Pinus lambertiana.

Sykurfura er ein þriggja náskyldra og nauðalíkra furutegunda í Norður-Ameríku, en hinar eru báðar kallaðar hvítfurur Pinus strobus og Pinus monticola. Allar eru þessar fimm nála furutegundir gríðarstór og myndarleg tré og mikilvæg timburtré. Á átjándu öld byggðist timburiðnaður á austurströnd Ameríku og í Bretlandi nánast eingöngu á austurstrandar hvítfurunni (Pinus strobus) sem einnig er kölluð Weymouth-fura og eru viðir margra breskra húsa enn úr þeirri furu. Sykurfura er þó þeirra stærst og reyndar stærsta furutegund í heimi.

Sykurfura1Sykurfururnar í Sierra Nevada standa gjarnan upp úr krónulaginu í þessum þó ótrúlega hávöxnu skógum og gefa fæstum risafurum nokkuð eftir í hæð. Krónur gamalla sykurfura eru sérkennilega óreglulegar með tiltölulega fáar greinar sem skaga út í allar áttir. Sumar greinanna eru lengri en flest tré á Íslandi eru há og oft hanga 30-40 cm langir könglar á greinaendunum. Nafn tegundarinnar skýrist af sætu harpixi eða trjákvoðu, auk þess sem fræin eru stór og æt.

Sykurfura hefur nánast ekkert verið reynd á Íslandi. Í heimkynnum sínum vex hún frá láglendi og allt upp í 3.000 m hæð þar sem vetur eru langir og snjóþungir en sumur stutt. Það væri vel þess virði að afla fræs frá þessum hæstu vaxtarstöðum sykurfuru en eflaust til lítils að reyna kvæmi úr minni hæð en um það bil 2.000 metrum.

 

 

 

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Myndband: Hlynur Gauti Sigurðsson
Fréttin var uppfærð 26.10.2021