Við stofn gulfuru í Sierra Nevada. Maður stendur við rætur trésins líkt og hann ætli að klifra upp e…
Við stofn gulfuru í Sierra Nevada. Maður stendur við rætur trésins líkt og hann ætli að klifra upp eftir reitóttum stofninum.

Tegund sem mætti reyna betur hérlendis

„Þetta er nú stærsta fura sem ég hef séð!“ var sagt um furu eina í Sequoia-þjóðskóginum í sunnanverðu Sierra Nevada í Kaliforníu. Svo var gengið í kringum tréð, gónt upp í loftið og teknar myndir. Þessi upphrópun heyrðist a.m.k. tvisvar í viðbót þann sama dag og var réttmæt í bæði skiptin. Fyrstu tvö trén voru gulfura (Pinus ponderosa).

Gulfura er eitt aðal timburtréð í vestanverðri Norður-Ameríku og myndar víðáttumikla skóga á stórum svæðum sem oft eru fremur þurrlend. Skógarnir eru því gjarnan gisnir og trén njóta sín vel. Gulfura er þokkafullt tré, beinvaxið og reglulegt í laginu með mjúklegt yfirbragð vegna langra nála. Gulfura getur líka orðið gríðarlega stór og telst því til risatrjáa. Hún gefur risafuru ekkert eftir í hæð í skógum þar sem þær tegundir vaxa saman. Börkurinn á gömlum trjám er sérstakur, gulbrúnn og reitaskiptur.


Gulfura er til á Íslandi en hefur ekki náð góðum þroska. Í heimkynnum sínum vex hún þó við mjög misjöfn skilyrði, allt frá því að vera nánast í eyðimerkurloftslagi á láglendi og upp í há fjöll þar sem vetur eru langir og snjóþungir. Eflaust mætti gefa þessari tegund meiri gaum hérlendis.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson