Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpar fundarfólk á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands við …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpar fundarfólk á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands við nýja fræðslusetrið sem Skógræktarfélag Kópavogs hefur komið upp í Guðmundarlundi í samvinnu við Kópavogsbæ. Guðni gróðursetti tré ásamt skólabörnum þegar fræðslusetrið var opnað formlega á föstudag. Ljósmynd af Facebook-síðu Skógræktarfélags Íslands

Nýjum skógræktarlögum var fagnað í ályktun á nýafstöðnum aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem fram fór í Kópavogi. Fundurinn ályktaði að tryggja þyrfti nægt fjármagn til gerðar landsáætlunar í skógrækt. Þá hvatti fundurinn ráðamenn til að tryggja skilvirka kolefnisbindingu og tegundafjölbreytni í skógum og sömuleiðis var því beint til ríkisstjórnarinnar að skógræktarfélögum yrði útvegað land til skógræktar.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Kópavogi 30. ágúst til 1. september 2019 og var þetta 84. aðalfundur félagsins. Gestgjafi aðalfundar að þessu sinni var Skógræktarfélag Kópavogs sem fagnar 50 ára afmæli á þessu ári. Góður rómur var gerður að allri skipulagningu og umgjörð fundarins sem fram fór í blíðuveðri.

Fundurinn hóst að venju á föstudagsmorgni með ávörpum. Fyrstur tók til máls Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og því næst steig í pontu Kristinn H. Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs. Þá flutti Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ávarp og í kjölfarið Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Kynnt var skýrsla og ársreikningur Skógræktarfélags Íslands, skýrsla Landgræðslusjóðs, tillögur að ályktunum og skipað í nefndir. Að því búnu voru á dagskránni nokkur fræðsluerindi samkvæmt venju. Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri í Kópavogi, fjallaði um Kópavog með grænum augum og Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, fjallaði um loftslagsskóga.

Úr vettvangsferð sem var á dagskrá aðalfundarins. Ljósmynd af Facebook-síðu FÍÍ vettvangsferð eftir hádegi á föstudag var byrjað á því að heimsækja Þorstein Sigmundsson í Elliðahvammi og kynnast ræktun fjölskyldu hans þar. Þaðan lá leiðin í Litladal við Lækjarbotna þar sem Þröstur Ólafsson, fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, hefur ræktað upp yndisskóg við sumarbústað sinn. Því næst var haldið í Guðmundarlund, skógarreit Skógræktarfélags Kópavogs, þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og nýtt fræðslusetur Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs var formlega tekið í notkun. Guðni fetaði þar í fótspor forvera síns, Vigdísar Finnbogadóttur, og gróðursetti tré ásamt skólabörnum.

Ályktað um ýmis mál

Á laugardag hófst fundahald með nefndastörfum þar sem meðal annars var unnið með tillögur að ályktunum aðalfundar.  Nýjum skógræktarlögum var fagnað í ályktun og einnig var ályktað að tryggja þyrfti nægt fjármagn til gerðar landsáætlunar í skógrækt. Fundurinn hvatti ráðamenn til að tryggja skilvirka kolefnisbindingu og tegundafjölbreytni í skógum og einnig var því beint til ríkisstjórnarinnar að skógræktarfélögum yrði útvegað land til skógræktar. Samþykkt var einnig hvatning til gerðar námsefnis um loftslagsmál fyrir grunnskóla landsins og í ályktun hvatti fundurinn stjórnvöld til að koma á vörsluskyldu búfjár og banni við lausagöngu í þjóðgörðum. Hlekkur er á ályktanir fundarins hér að neðan.

Að nefndastörfum loknum tóku við fræðsluerindi. Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur fjallaði um birkikynbætur, Björn Traustason hjá Skógræktinni kynnti Avenza-kortlagningaappið, Kristinn H. Þorsteinsson sagði frá því helsta úr 50 ára starfi Skógræktarfélags Kópavogs og ekki vakti minnsta athygli erindi Orra Freys Finnbogasonar arborista sem sagði frá því hvernig hann notar trjáklifur við umhirðu stærri trjáa.

Óbreytt stjórn

Eftir hádegi var haldið í skoðunarferð að Meltungu þar sem er yndisgarður, trjásafn, rósagarður og margt fleira á vegum Kópavogsbæjar. Dagskrá laugardags lauk svo með kvöldverði og hátíðardagskrá í Menntaskólanum í Kópavogi í boði Skógræktarfélags Kópavogs. Þrír félagar í Skógræktarfélagi Kópavogs voru heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þeir Þorsteinn Sigmundsson, Pétur Karl Sigurbjörnsson og Friðrik Baldursson. Skógræktarfélögum sem eiga tugaafmæli á árinu voru færðar árnaðaróskir og heiðursfélagar SÍ voru útnefnd Elísabet Kristjánsdóttir og Þorvaldur S. Þorvaldsson.

Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands lauk svo á sunnudag með hefðbundnum aðalfundarstörfum – afgreiðslu reikninga, ályktana og kosningu stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin þau Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga, og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.

Nánar má fregna af aðalfundinum á vef Skógræktarfélags Íslands og Facebook-síðu félagsins.

Fundargögn

Erindi á fundi og fylgigögn:

Heimild: skog.is
Fleiri myndir og frásagnir: Facebook-síða FÍ
Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson