Áhugi á hinum íslenska reynivið (Sorbus aucuparia L.) hefur farið ört vaxandi hin síðari ár og er hann farinn að verða meira áberandi í skóglendum landsins. Ekki á þetta síst við á Vestfjörðum þar sem reyniviðurinn hefur í gegnum tíðina verið hluti af flóru birkiskóganna. Reyniviður er ein af þrem innlendum trjátegundum, en hinar eru birki og blæösp. Hann finnst um allt land, þó síst á  Norðurlandi vestra og í Skaftafellssýslum. Reyniviður tilheyrir reyniættkvíslinni Sorbus sem aftur heyrir til rósaættar (Rosaceae). Algengast er að reyniviður viðhaldi sér með rótarskotum eða teinungum sem spretta venjulega frá rótarhálsi  trésins. Hann dreifir sér með fræjum og er skógarþrösturinn helsti fræberinn þar sem hann er mjög sólginn í reyniber um leið og þau verða fullþroska. Margar heimildir eru fyrir því að reyniviður sé eftirsótt beitarplanta auk þess sem fjölmargar  erlendar rannsóknir sýna að reyniviður er eitt af því fyrsta sem bitið er, hvort heldur af sauðfé eða öðrum beitardýrum.

Í Ársriti Skógræktar ríkisins fjalla þeir Sighvatur Jón Þórarinsson og Ólafur Eggertsson um vistfræði reyniviðar í Trostansfirði á Vestfjörðum. Þar beita þeir rannsóknaraðferðum árhringjafræðinnar m.a. með það að markmiði að svara því hvers vegna reyniviðurinn hafi í raun orðið meira áberandi í birkiskógum Vestfjarða hin síðari ár.


Texti: Sighvatur Jón Þórarinsson og Ólafur Eggertsson
Mynd: Ólafur Eggertsson