Hanna Jane Cohen hjá Reykjavík Grapevine á gangi um Heiðmörk og minnist á hvatningu Skógræktarinnar …
Hanna Jane Cohen hjá Reykjavík Grapevine á gangi um Heiðmörk og minnist á hvatningu Skógræktarinnar til fólks að knúsa tré til að gleðja sig og styrkja í veirufaraldrinum. Skjámynd úr myndbandinu.

Ástæða er til að benda útlendingum á íslensku skógana til náttúruskoðunar og útivistar. Á göngu sinni um Heiðmörk heillaðist blaðakonan Hanna Jane Cohen af umhverfinu sem kveikti með henni fortíðarþrá til æskustöðvanna.

Hanna Jane starfar hjá fjölmiðlinum Reykjavík Grapevine. Í myndbandi sem hún gerði ásamt ljósmyndaranum Art Bicnick talar hún um skóga og skógleysi á Íslandi. Hér megi finna dásamlega skóga eins og í Heiðmörkinni og þeir séu mikil andstæða við umhverfi landsins að öðru leyti. Hún líkir Heiðmörk og Rauðhólum við umhverfið í sjónvarpsþáttaröðinni Game of Thrones. Það sé engu öðru líkt. Skógurinn í Heiðmörk er í umsjón Skógræktarfélags Reykjavíkur. Kveikjan að myndbandinu er hins vegar hvatning Skógræktarinnar til almennings að knúsa tré til að lyfta sér upp úr veirufárinu.

Sjálf er Hanna Jane alin upp á skóglendu svæði og hún segist fyllast fortíðarþrá þegar hún gengur um skóginn í Heiðmörk. Íslenskir skógar séu reyndar ólíkir skógum í útlöndum því hér sé minna um skordýr og engin dýr á vappi í skógunum.

Myndbandið er hluti af röð sem Reykjavík Grapevine gefur út til að bregðast við afleiðingum kórónuveirufaraldursins og vekja athygli á ýmsu áhugaverðu á Íslandi. Sjá má myndböndin á myndbandasíðu fjölmiðilsins á Youtube.

#knusumtre

Texti: Pétur Halldórsson