Risastór sitkagrenistykki sjórekin á vesturströnd Norður-Ameríku

Skógræktarfólk af Austurlandi upplifði ótrúlega sjón í fjörum á vesturströnd Norður-Ameríku í ferðalagi um skógarsvæði þar vestra á liðnu hausti. Allt er stórt í Ameríku, er stundum sagt og það gildir sannarlega um rekaviðinn líka.

Víða í íslenskum fjörum má finna rekavið sem að mestu er ættaður úr skógum Síberíu. Sumir bolirnir eru býsna stórir en sjaldgæft er þó að finna rekaviðarbjálka sverari en um 50 cm í þvermál. Það var því ævintýri að koma á strönd á Ólympíuskaga í Washingtonríki í Bandaríkjunum og upplifa REKAVIÐ. Þarna var rekaviðurinn ekki eins langt að kominn eins og á Íslandi, að mestu ættaður frá ströndum Bresku-Kólumbíu og Alaska. Innan um var viður nokkurra trjátegunda en stærstu stykkin voru öll sitkagreni. Myndirnar tala sínu máli.   


Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson