Ertuygla (Melanchra pisi) er fiðrildi af ætt ygla. Stofn hennar og skaðsemi hefur farið sívaxandi á undanförnum 1-2 áratugum.. Eins og nafnið gefur til kynna þá sækja lirfur ertuyglu einkum í jurtir af ertublómaætt og hérlendis sækja þær mest í alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) en sækja þó einnig í ungskóg og hafa valdið umtalsverðu tjóni á skógræktarsvæðum á sunnaverðu landinu. Erlendis er slíkt lítið þekkt og því hefur ertuygla tiltölulega lítið verið rannsökuð.

Vorið 2009 fór af stað verkefni, styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, þar sem lífsferill, útbreiðsla og skaðsemi ertuyglu eru rannsökuð. Auk Skógræktar ríkisins koma Landgræðsla ríkisins og Suðurlandsskógar að þessu verkefni.

Ertuyglan hefur að mestu leyti verið bundin við sunnanvert landið en útbreiðsla hennar virðist vera að aukast, einkum á Vesturlandi. Búast má við að útbreiðsla ertuyglunnar muni breytast og aukast með hlýnandi veðurfari og er því mikilvægt að fylgjast vel með og skrásetja nýja fundarstaði hennar. Þéttleika ertuyglu getur verið mikill þar sem aðstæður henta henni vel eða að lágmarki 17 þúsund púpur á hektara.

Fiðrildi ertuyglu eru á ferli frá byrjun júní og fram í júlí. Þau verpa á blöð jurta í lok júní/byrjun júlí og eggin klekjast um það bil viku síðar. Eftir að lirfurnar hafa klakist út taka þær vel til matar síns á nærliggjandi gróðri fram eftir sumri. Í ágúst-september hafa þær náð fullum vexti, skríða niður í svörðinn og búast til vetrardvala. Hingað til hefur verið talið að lirfurnar liggi í dvala yfir veturinn og púpi sig um vorið. Í rannsóknum síðastliðið haust fundust  hins vegar einungis púpur en engar lirfur ofan í sverði. Þetta gefur til kynna að ertuyglan liggi í dvala sem púpa yfir veturinn en ekki lirfa eins og áður hefur verið talið.

Á þessu ári verður haldið áfram með rannsóknir á ertuyglunni. Búið er að fara og leita að púpum á tilraunasvæðunum við Gunnarsholt og í haust verða teknar út gróðursetningar síðasta árs þar sem meta á hvort ertuyglan leggist jafn þungt á allar trjátegundir. Einnig verður haldið áfram með rannsóknir á lífsferli og þéttleika. Síðast en ekki síst, verða rannsóknir á hvaða vörnum er hægt að beita gegn ertuyglunni. Reynt verður að eitra með skordýraeitri og árangur þess borinn saman við notkun lífrænna varna. Fyrstu niðurstöður hvað þetta varðar munu liggja fyrir seinnipart ársins 2010.

Myndin sýnir starfsfólk Skógræktarinnar og Landgræðslunnar við púpuleit á Rangárvöllum í júní 2010. 


Texti: Edda S. Oddsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá