Hér er greinilegt hversu græn lerkitrén næst ljósastaurnum eru miðað við þau sem standa fjær.
Hér er greinilegt hversu græn lerkitrén næst ljósastaurnum eru miðað við þau sem standa fjær.

Lerkitré standa enn græn næst ljósastaurum í Kjarnaskógi

Jafnvel gamlir símastaurar verða grænir aftur, segir í ljóði Tómasar Guðmundssonar og gott ef þeir syngja ekki líka í sólskininu. Þótt haustið hafi verið hlýtt og langt hefur þó ekki frést af slíkum kraftaverkum. Hitt er víst að þetta hlýja haust hefur brugðið upp ýmsum skemmtilegum myndum í skógunum okkar.

Fyrsta norðanáhlaupið er að vissulega að hellast yfir okkur í dag en til þessa  höfum við fengið að njóta haustlitanna til hins ýtrasta.

Fyrir helgi fréttist af því að lerkitré við ljósastaura í Kjarnaskógi á Akureyri héldu enn fast í græna litinn og þótti augljóst að rafljósin hefðu platað trén og dregið úr þeim að búa sig undir veturinn. Skógur.is fór á stúfana og myndaði tré við þrjá ljósastaura á afleggjaranum upp í Kjarna. Myndirnar voru teknar föstudaginn 17. október.

 Á meðfylgjandi myndum sést hve græni liturinn heldur sér vel á trjánum sem næst eru ljósastaurunum. Þau tré sem fjær eru hafa á hinn bóginn alveg klæðst haustlitum. Týran frá götuljósunum virðist duga til að trufla áhrif sólargangsins á trén sem næst staurunum standa.

Spurningin er svo bara hvort þetta hefur einhver áhrif á viðnám trjánna við klóm veturs konungs sem í dag sýna sig, beittar og nýbrýndar.


Hér fyrir neðan má svo sjá tré við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri sem felldu laufið hratt eftir fyrstu frostnóttina sem eitthvað kvað að þetta haustið. Laufin fuku ekki af trjánum heldur féllu tignarlega niður í logninu og lögðust eins og teppi í kringum trén.

Brjóstmyndin af Páli Briem norðan við Gömlu-Gróðrarstöðina við Krókeyri á
Akureyri stendur í skjóli gamals reyniviðar sem stóð heiðgulur vikum saman
í haust en nú liggja laufin rauðbrún undir trénu.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson