Aðlögun að loftslagsbreytingum í sveitarfélögum og borgum Norðurlandanna er megináhersluefni ráðstefnunnar NOCCA'23 sem haldin verður á Grand hótel í Reykjavík 17. og 18. apríl. Skráning er hafin.

Þetta er sjötta ráðstefnan af þessu tagi og í þetta skiptið fer hún fram í Reykjavík. Aðaláhersla ráðstefnunnar í ár er aðlögun að loftslagsbreytingum í sveitarfélögum og borgum Norðurlandanna. Spurt verður hvernig aðlögun að loftslagsbreytingum sé háttað á Norðurlöndunum. Ráðstefnan á því erindi til allra sem fást við málefni sem tengjast aðlögun, hvort sem er í vísindasamfélaginu eða opinberri stjórnsýslu, starfsmönnum sveitarfélaga, fagstofnana, einkafyrirtækja og félagasamtaka.

Á  dagskrá fyrri ráðstefnudagsins verða erindi sérfræðinga víðs vegar að af Norðurlöndunum en seinni daginn verða í boði fjórar mismunandi vinnustofur sem miða að því að leita lausna við margvíslegum úrlausnarefnum sem tengjast loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út að einn þriðji af úrræðunum til að halda hlýnun á jörðinni innan 1,5°C hlýnunar felist í náttúrumiðuðum lausnum. Skógrækt er hluti af þeim lausnum, hvort sem það er verndun og efling skóga sem fyrir eru, endurhæfing og endurræktun horfinna skóga eða ræktun nýrra skóga til margvíslegra nytja. Mikilvægt er að sveitarfélög á Íslandi setji sér markmið um slíkar lausnir og taki virkan þátt í að gera landshlutaáætlanir í skógrækt í samræmi við nýsetta áætlun stjórnvalda um skógrækt og landgræðslu, Land og líf.

Með aukinni trjá- og skógrækt í íslenskum sveitarfélögum má ná ýmsum markmiðum, svo sem að auka kolefnisbindingu, byggja upp græna framtíðarauðlind, auka skjól og bæta þar með staðviðri, hamla gegn ýmissi náttúruvá svo sem flóðum og skriðuföllum, verja mannvirki svo sem hús, vegi, byggingar o.s.frv., spara orku, auka útivistarmöguleika, draga úr loft- og hávaða mengun í þéttbýli, bæta vatsbúskap, efla lífríki og fleira mætti nefna. Ráðstefnan NOCCA'23 er fagnaðarefni og ástæða til að hvetja fólk til að gefa henni gaum.

Íslendingar eru nú gestgjafar ráðstefnunnar undir forystu Veðurstofu Íslands með fulltingi ríkisstjórnarinnar og fjármagni frá Norrænu ráðherranefndinni.

Upplýsingar og skráning

Frétt: Pétur Halldórsson