Dagana 5. - 7. nóvember s.l. var fimmti ráðherrafundur um vernd skóga í Evrópu haldinn í Varsjá undir þemanu: Skógar í þágu lífsgæða. Fyrir Íslands hönd mættu Níels Árni Lund deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu sem staðgengill ráðherra, Jón Loftsson skógræktarstjóri og annar starfsmaður Skógræktar ríkisins þeim til halds og trausts. Á fundinum voru tvær samþykktir undirritaðar; önnur um skóga, við og orku og hin um mikilvægi skóga í þágu vatnsverndar. Þá var Varsjáryfirlýsingin undirrituð, en samkvæmt henni skuldbinda Evrópulönd sig til að efla skógrækt og skógvernd á ýmsan hátt. Þeim sem vilja kynna sér ráðherrafundaferlið nánar er bennt á www.mcpfe.org

 

Erindi flutt fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á 5. ráðherrafundi um vernd skóga í Evrópu, Varsjá, 5. – 7. nóvember 2007

 

Fundarstjóri, ágætir fundargestir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands, hr. Einar Kristinn Guðfinnsson, sendir bestu heillaóskir til fundarins og finnst eftirsjá í að geta ekki mætt. Framsaga þessi er flutt fyrir hans hönd.

 

Þrátt fyrir áframhaldandi almenna skógareyðingu í heiminum hefur útbreiðsla skóga aukist á nokkrum svæðum, einkum í Evrópu. Aukin útberiðsla skoglendis gæti verið vísbending um bætta meðferð og nýtingu skógarauðlinda eða að viðkomandi lönd séu að draga úr neyslu skógarafurða eða að nýta þær á hagkvæmari hátt með endurvinnslu og þess háttar. Á hinn bóginn gæti það einfaldlega þýtt að viðkomandi lönd séu að flytja inn skógarafurðir í ríkara mæli en áður.

 

Í meginatriðum minnkar neysla ekki. Til eru dæmi um bætta meðferð og nýtingu skóga en þau hafa einkum leitt af sér lægra verð, ekki aukna vernd skógarauðlinda. Því miður er það líklega oftast tilfellið að aukin útbreiðsla skóga á einum stað leiðir af sér skógareyðingu á öðrum. Breyðingar á landnýtingu flækja myndina en heildarútkoman er samt þessi. 

 

Við eigum að gleðjast yfir því þegar skógar breiðast út þar sem það á sér stað. Við Íslendingar gerum það. Við höfum ekki skógarauðlind á Íslandi sem er þess megnug að halda uppi skógariðnaði.  Hins vegar er neysla okkar á skógarafuðum fyllilega sambærileg við neyslu annarra landa þar sem lífsgæði eru svipuð, en þær eru allar innfluttar. Við Íslendingar ættum því ekki síður en aðrir að vera meðvitaðir um ábyrgð okkar á að nýta skógarafurðir á sjálfbæran hátt.  En þar sem við höfum ekki skógariðnað virðist þetta nokkuð fjarlægt. Sjálfbær nýting skóga er vandamál einhvers annars í hugum flestra Íslendinga. Það kann að virðast furðulegt að til sé fólk á Íslandi sem kærir sig ekki um aukna útbreiðslu skóga og margir sem telja að aukin skógrækt sé ekki aðkallandi. Það fólk telur gróðursettningu trjáa vera ágætis tómstundaiðju en lætur það nægja.

 

Því miður er þessi afstaða ekki bundin við Ísland. Í mörgum skógi vöxnum löndum trúir fólk því að nýting þeirra á skógarafurðum sé sjálfbær af því að þar er mikið um verndaða skóga og strangar reglur um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og menningarverðmæta.  Flest fólk hugsar aldrei út í að vernd þeirra eigin skóga gæti leitt af sér aukinn þrýsting á skóga annarsstaðar.  Allt of oft tengir fólk ekki skógvernd og neyslu skógarafurða.

 

Við erum að ganga inn í tímabil þegar þrýstingur á framleiðslu skóganna mun aukast vegna veðurfarsbreytinga og aukinnar eftirspurnar eftir skógarafurðum um leið og mjög stór hagkerfi á borð við Kína og Indland þróast.  Hér í Evrópu verður orkuvinnsla byggð á framleiðslu skóganna sífellt mikilvægari.

 

Áherslur í skógræktarrannsóknum og meðferð skóga, sem hafa snúist um líffræðilega fjölbreytni og ýmis önnur gildi undanfarin 20 ár, virðast vera að færast aftur í átt til framleiðsluskógræktar. Áhersla eykst á skógarumhirðu, skógerfðafræði og kynbætur til að auka vaxtarhraða og bæta aðlögun trjáa. Í þessu nýja umhverfi munum við, sem höfum notið þess að geta tekið skóga okkar úr framleiðslu eða jafn vel leyft okkur að hafa ekki skóga þar sem þeir ættu að vaxa, þurfa að endurskoða afstöðu okkar.

 

Um leið megum við ekki gleyma því sem við höfum lært undanfarin 20 ár. Við verðum að halda áfram að finna skilvirkar leiðir til að samhæfa framleiðslu og vernd, sem reyndar ráðherrafundirnir hafa ávallt reynt að gera.

 

Við verðum öll að bera ábyrgð. Við Íslendingar berum ábyrgð á því að byggja upp skógarauðlind okkar og síðan að nýta hana á sjálfbæran hátt.  Það er von okkar að sá tími komi að íslenskir skógar geti lagt sitt af mörkum til sjálfbærra skógarnytja í heiminum.