Þegar sögunarmylla Skógræktarinnar á Hallormsstað var skoðuð snæddi ráðherra hádegisverð í myndarleg…
Þegar sögunarmylla Skógræktarinnar á Hallormsstað var skoðuð snæddi ráðherra hádegisverð í myndarlegu Samatjaldi sem Hótel Hallormsstaður og Skógræktin á Hallormsstað hafa í samvinnu reist ofan við hótelið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti höfuðstöðvar Skógræktarinnar á Egilsstöðum föstudaginn 6. júlí. Þá fékk hann einnig að kynnast viðarvinnslu Skógræktarinnar á Hallormsstað.

Ráðherra kom austur ásamt aðstoðarmanni sínum, Orra Páli Jóhannssyni, og Sigríði Auði Arnardóttur ráðuneytisstjóra. Þau áttu fund með starfsfólki aðalskrifstofu og framkvæmdaráði Skógræktarinnar sem kom þar saman af þessu tilefni einnig. Töluvert var rætt um hlutverk og möguleika skógræktar í loftslagsmálum og ráðherra var fræddur um starfsemi Skógræktarinnar vítt og breitt um landið og stöðu ýmissa mála hjá stofnuninni.

Að fundi loknum á aðalskrifstofu var haldið inn að Hallormsstað og litið við í trjásafninu í Mörkinni þar sem elstu gróðursettu tré skógarins standa en síðan fékk ráðherra að sjá hvernig trjábolum er flett í borðvið í sögunarmyllu Skógræktarinnar á Hallormsstað. Því næst var snæddur hádegisverður í myndarlegu tjaldi sem Hótel Hallormsstaður og Skógræktin á Hallormsstað hafa í samvinnu reist ofan við hótelið. Tjaldið er hugsað fyrir veitingar og aðra viðburði í skóginum.  

Fyrirmyndin að þessu tjaldi eru tjöldin sem Samarnir í Norður-Skandínavíu hafa notað í aldir og nota enn þann dag í dag. Tjaldið tekur 55 manns í sæti með bálstæði í miðju. Að auki er stór pallur utan við tjaldið. Tjald, pallur og allur búnaður er hótelsins en starfsmenn Skógræktarinnar á Hallormsstað sáu um að búa til rjóður í skóginum fyrir tjaldið og vinna svæðið undir það, leggja stíga með kurli, smíða tröppur og fleira ásamt því að hjálpa til við uppsetningu á tjaldinu og frágangi. Skógræktin hefur aðgang að tjaldinu til að nota við ýmis tækifæri í samráði við hótelið.

Þetta er skemmtileg viðbót í afþreyingu og þjónustu við gesti skógarins. Tjaldið á að standa uppi allt árið og nýtast til viðburða að vetri einnig. Ráðherra og fylgdarfólk lauk lofsorði á þetta framtak um leið og notið var dýrindis kjötsúpu og meðlætis í um 20 stiga hita og sólskini í skóginum.

Að málsverði loknum ávarpaði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ráðherra og færði honum að gjöf að fornum íslenskum sið. Gjöfin er minnispeningur sem Skógræktarfélag Íslands gaf út árið 1974 í tilefni af 75 ára afmæli skipulagðrar skógræktar á Íslandi. Þetta tiltekna eintak minnispeningsins átti Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, og gæti hafa fengið að gjöf þegar hann var skógarvörður á Hallormsstað. Peningurinn rataði til Skógræktarinnar í gögnum og munum sem fjölskylda Sigurðar færði Skógræktinni að honum látnum. Rétt eins og fornmanna var háttur er heiður að gjöfum sem fá framhaldslíf með því að vera gefnar áfram á táknrænan hátt. Guðmundur Ingi Guðbrandsson varðveitir nú þennan pening sem hefur þessa sögu með sér og var á sínum tíma gefinn út til að safna fé til skógræktar á Íslandi. Fjársöfnunin gekk vel en peningurinn var hannaður með tvö meginmarkmið skógræktar í huga, að vernda og nýta, og er vel heppnaður. Hann er tákn fyrir skógvernd og tákn fyrir gjafir skógarins þannig að hann táknar vel hugmyndafræði skógræktar. Gjafir hafa merkingu og Skógræktin þakkar Mumma ráðherra kærlega fyrir komuna.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson