Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, fylgist með kynningu á íslenskri skógrækt í funda…
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, fylgist með kynningu á íslenskri skógrækt í fundarsal Skógræktarinnar á Egilsstöðum. Á myndinni eru líka frá vinstri: Steinar Kaldal, aðstoðarmaður ráðherra, Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri, bak við Björtu glittir í Hrein Óskarsson, sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar, og Önnu Pálínu Jónsdóttur launafulltrúa en lengst til hægri er Edda S. Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs.

Vill virkja atvinnulífið til bindingar með skógrækt

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlinda­ráðherra, vill örva atvinnulífið til kolefnis­bind­ing­ar með skógrækt. Hún segir að með aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um loftslags­mál sem von er á fyrir árslok megi búast við auknum framlögum til skóg­rækt­ar.

Ráðherra heimsótti Skógræktina í gær í höfuðstöðvarnar á Egilsstöðum á alþjóð­leg­um degi skóga ásamt aðstoðar­manni sín­um, Steinari Kaldal, og Sigríði Auði Arnar­dóttur ráðu­neytis­stjóra. Þau áttu góðan fund með framkvæmdaráði Skógræktar­innar sem skipað er skógræktarstjóra, fag­málastjóra og fjórum sviðstjórum stofn­un­ar­inn­ar. Einnig voru á fundinum kynningar­stjóri Skóg­ræktar­innar og launa­fulltrúi. Fundurinn hófst með því að ráðherra var sýnt nýtt myndband sem Skógræktin gerði í tilefni af alþjóðlegum degi skóga.

Ýmislegt var rætt á fundinum með ráðherra. Gestirnir voru fræddir um margvíslegar hliðar skógræktar á Íslandi, um stofnunina og verkefni hennar, stöðu skógræktar í landinu, útbreiðslu og þróun skóglendis á Íslandi og margt fleira. Björt sagði frá því að hún væri ekki með öllu ókunnug skógrækt enda af skógarbændum komin. Meðal ann­ars hefði hún starfað með ungmennum að gróðursetningu í heimahögum sínum í Biskupstungum.

Töluvert var rætt á fundinum um mál málanna í heiminum í dag, loftslagsbreytingar, einkum hvað snertir möguleika til kolefnisbindingar í skógi. Björt hefur mikinn áhuga á þessum efnum og vilja til að auka skógrækt í landinu, ekki síst sem aðgerð í loftslagsmálum. Ráðherra telur þó ekki rétt að ríkið standi eitt að aukningu bindingar með skógrækt. Hún vill liðka fyrir möguleikum atvinnu­lífsins til að leggja þar til málanna drjúgan skerf. Ekki liggur fyrir útfærsla í þeim efnum en von er á aðgerðar­áætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum undir lok ársins. Óskaði ráðherra eftir því að Skóg­rækt­in legði ráðuneytinu til skýrar og hnitmiðaðar upplýsingar um möguleika Íslands í bindingu með skógrækt.

Að loknum fundinum í aðalstöðvum Skógræktarinnar á Egilsstöðum átti Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður Ríkis­útvarpsins á Austurlandi, viðtal við ráðherra og skógræktarstjóra sem birtist í útvarpsfréttum og á vef Ríkisútvarpsins.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri með orðið. Sviðstjórarnir Edda S. Oddsdóttir,
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Gunnlaugur Guðjónsson á rannsókna-,
skógarauðlinda- og fjármálasviði fylgjast með.


Texti og myndir: Pétur Halldórsson