Landsáætlun um landgræðslu og skógrækt geymir framtíðarsýn til ársins 2031 en aðgerðaáætlunin nær ti…
Landsáætlun um landgræðslu og skógrækt geymir framtíðarsýn til ársins 2031 en aðgerðaáætlunin nær til ársins 2026. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Matvælaráðherra hefur gefið út fyrstu sameinuðu stefnuna í landgræðslu og skógrækt auk aðgerðaáætlunar. Yfirskrift hennar er Land og líf og þar er sett fram landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt með framtíðarsýn til ársins 2031. Aðgerðaáætlunin nær fram til ársins 2026.

Frá þessu er greint í frétt á vef ráðuneytisins og fram kemur að stefnan sé unnin samkvæmt nýlegum lögum um landgræðslu og um skóga og skógrækt. Stefna stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt feli í sér framtíðarsýn, gildi og áherslur í málaflokknum og endurspeglist að verulegu leyti í þeim lögum sem gilda um málaflokkinn. Stefnan ráðist einnig af þróun mála á alþjóðlegum vettvangi og skuldbindingum Íslands í samstarfi við aðrar þjóðir, svo sem á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðlegra stofnana.

Verkefnisstjórnir voru skipaðar í júní 2019 og höfðu það hlutverk að móta tillögur að landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt. Verkefnisstjórnirnar tvær unnu að tillögum sínum og kynntu þær í opnu samráði á vormánuðum 2021. Í kjölfarið skiluðu þær tillögunum til ráðuneytisins ásamt umhverfismati og samantekt á helstu athugasemdum.

Í frétt ráðuneytisins segir að áherslur matvælaráðherra snúi að vernd, viðgangi og heilleika vistkerfa á grunni vistkerfisnálgunar. Einnig eflingu náttúrumiðaðra lausna í loftslagsmálum sem samræmist alþjóðlegum skuldbindingum, stuðli að sjálfbærri landnýtingu, efli þekkingu, samstarf og lýðheilsu og stuðli að sjálfbærri þróun byggða um allt land.

„Ég legg mikla áherslu á að matvælaframleiðsla byggi á sjálfbærri nýtingu, hvort sem er til lands eða sjávar. Með þessari áætlun leggja bæði landgræðsla og skógrækt sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Til verða atvinnutækifæri í ríkari auðlindum og nýting byggir á sjálfbærum grunni,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í frétt ráðuneytisins.

Aðgerðaáætlun í landgræðslu og skógrækt nær til áranna 2022-2026 og mun því móta forgangsröðun í aðgerðum stjórnvalda til næstu ára. Meðal skilgreindra aðgerða eru rannsóknir á áhrifum landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis á lífríki, gerð nýrra gæðaviðmiða við val á landi til skógræktar og mat á kolefnisjöfnuði fyrir losunarbókhald í loftslagsmálum. Beinar aðgerðir snúa einkum að endurheimt vistkerfa á röskuðu landi, endurheimt votlendis, endurheimt náttúruskóga og skógrækt.

Vefstjórn: Pétur Halldórsson