Úr Fréttablaðinu 17. janúar 2003 (frétt.is) og af vefsíðu FutureForests

Aðdáendur Joe Strummer:
Hvattir til skógræktar

TÓNLIST Aðdáendur Clash-söngvarans Joe Strummer eru hvattir til þess að planta tré í minningu hans.  Skógræktar- og kolefnisbindingarsamtökin Future Forests hafa tekið frá landsvæði á strönd Bracadale-vatns á eynni Skye undan vesturströnd Skotlands þar sem trjám verður plantað í nafni söngvarans.  Um leið og skóginum er ætlað það hlutverk að binda kolefni og vega mót uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti, verður skógurinn ræktaður í því skyni að vernda fornar mannvistarleifar á svæðinu gegn vatnsrofi og eyðingu.

Strummer var mikill stuðningsmaður samtakanna og lagði oft fram peninga til málstaðar þeirra.  Strummer hafði ákveðið að hluti af öllum þeim geisladiskum sem hann seldi myndu renna í það að byggja upp skóg á svæðinu. Þannig ætlaði hann að verða fyrsti tónlistarmaðurinn sem framleiddi jafn mikið af súrefni og koltvísýringi og hvetja aðra listamenn að fara að fordæmi sínu.  Strummer átti óbeint þátt í stofnun samtakanna Future Forests. Þau voru stofnuð eftir að Strummer hvatti stofnendur þess til dáða baksviðs á einum tónleikum sínum.
Joe lést á heimili sínu sunnudaginn 22. desember af völdum hjartabilunar. Hann var aðeins 50 ára gamall og átti rétt ólokið þriðju sólóplötu sinni.  Frægðarsól hans skein þó hæst á pönktímabilinu þegar The Clash réði ríkjum ásamt Sex Pistols.   Á myndinni miðri má sjá Strummer ásamt félögum sínum árið 1983.