Íslenska skógræktarfólkið ásamt pólskum starfsystkinum við bækistöðvar umdæmi pólsku skógræktarinnar…
Íslenska skógræktarfólkið ásamt pólskum starfsystkinum við bækistöðvar umdæmi pólsku skógræktarinnar í Żednia-héraði. Mynd: Nadleśnictwo Żednia.

Gestirnir fengu margvíslegan fróðleik um skógrækt, skógarnytjar og skógvernd

Hópur íslensks skógræktarfólks var á ferð í Póllandi í síðustu viku og heimsótti þá með­al annars Nadleśnictwo Żednia sem er starf­stöð pólsku ríkis­skóg­rækt­ar­inn­ar í þorp­inu Żednia í norðaustanverðu Póllandi. Gestirnir frædd­ust um ýmsar skógræktar­fram­kvæmd­ir ytra, skógarplöntuframleiðslu, áætlanagerð, uppskeru, verndunarmál og fleira.

Frá þessu segir í frétt á vef Lasy Państwowe, pólsku ríkisskógræktarinnar. Fram kemur að hinir íslensku gestir hafi verið bæði frá Skógræktinni og Skóg­ræktar­félagi Íslands, stærstu umhverfis­sam­tök­um landsins. Á Íslandi sé unnið ötullega að því að klæða landið skógi á ný og því sé að þakka að Íslendingar séu í fararbroddi meðal þjóða við upp­græðslu rofins lands með skógi. 

Þá segir einnig m.a. að íslensku gestirnir hafi verið fræddir almennt um skógrækt í Póllandi og starf pólsku ríkis­skóg­ræktarinnar verið tekið sem dæmi um sjálfbærni í skógrækt. Íslendingarnir hafi sýnt sérstakan áhuga á hagkvæmni og tæknilegum þáttum ýmissa verkefna í pólsku skógræktinni, ekki síst í plöntuframleiðslunni, aðferðum við áætlana­gerð og skógarhögg en einnig atriðum sem snertu skógverndarmál. Þá var gestunum líka kynntur árangur aðgerða sem ráðist hefur verið í til að vernda tegundir í útrýmingarhættu. Íslendingarnir fengu því margvíslegan fróðleik um skógrækt, skógarnytjar og skógvernd í Póllandi.

Meðfylgjandi mynd er tekin af vef pólsku ríkisskógræktarinnar en þar má sjá fleiri myndir frá heimsókn Íslendinganna. Nánar verður sagt frá ferðinni hér á skogur.is á næstunni.

Texti: Pétur Halldórsson