Fyrir jólin berast oft fregnir af því að skordýr og önnur smádýr hafi lifnað úr dvala þegar jólatré voru tekin inn í stofu. Sumum verður hverft við og óttast að þessar lífverur geti valdið einhverjum skaða á heimilinu eða jafnvel skaðað heimilsfólkið. Rétt er því að árétta fyrir þessi jól að það er alveg eðlilegt að eitthvað líf sé í trjánum og er bara merki um að þau hafa ekki verið ekki verið meðhöndluð með eiturefnum. Þessi smádýr gera engum mein.

Hér á skogur.is birtist í dag önnur frétt (og reyndar í öðrum fjölmiðlum einnig) um nýjan sveppasjúkdóm á þini, en stór hluti af seldum jólatrjám eru af tegundinni nordmannsþinur. Sumir söluaðilar jólatrjáa óttast að slíkar fréttir fæli fólk frá því að kaupa þessi jólatré. Rétt er því að það komi fram að slíkir plöntusjúkdómar eru algjörlega meinlausir fyrir fólk og húsdýr. Þar að auki er afar ósennilegt að sýkt tré fari í sölu. Lifandi trjám geta sem sé fylgt lífverur úr náttúrunni en engin ástæða er til að óttast þær.


Texti: Halldór Sverrisson
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir