Lestun íslensks grisjunarviðar á timburbíl.
Lestun íslensks grisjunarviðar á timburbíl.

Þúsundir rúmmetra tiltækar strax á Norður- og Austurlandi og framboð vaxandi

Viðarmagnsspá Skógræktarinnar frá 2015 sýnir að nú þegar væri hægt að afhenda í það minnsta 2.000 rúmmetra af grisjunar­viði á ári úr skógum á Austurlandi til kísil­vers PCC á Bakka við Húsavík. Magnið fer mjög vaxandi á næstu árum og um miðjan næsta áratug væru tiltækir um 10.000 rúm­metrar á ári fyrir austan. Til viðbótar er tals­vert magn tiltækt nú þegar á Norður­landi sem einnig fer hratt vaxandi.

Það er fagnaðarefni að á kynningarfundi um gangsetningu hins nýja kísilvers PCC á Bakka, sem haldinn var í gær á Húsavík, skuli forsvarsmenn verksmiðjunnar hafa verið spurðir um mögulega notkun íslensks timburs sem kol­efnis­gjafa við fram­leiðsl­una.  Fjallað er um fundinn í Frétta­blaðinu í dag þar sem segir orðrétt á bls. 6:

„Við höfum verið í viðræðum við nokkra bændur. En vinsældir eldbakaðra pitsa hafa þau áhrif að það er minna framboð á íslensku timbri. Pitsuofnar eru í samkeppni við okkar ljósbogaofna,“ segir Hafsteinn Viktorsson fram­kvæmdastjóri PCC.

Þetta var þó greinilega sagt í hálfgerðu gríni og fært í stílinn. Íslenskt birki er úrvalshráefni sem eldiviður í pitsuofna og þess er aflað með grisjun og snyrtingu íslenskra birkiskóga. Íslenska birkið er hins vegar flest kræklótt og því henta aðeins örfáir skógar til viðarvinnslu. Auk þess vex það hægt og er birki til viðarvinnslu því takmörkuð auðlind. Magnið sem þarf til pitsugerðar mælist í hundruðum rúmmetra á ári en kísilverin þurfa tugi þúsunda rúmmetra hvort. Þarna er því ólíku saman að jafna og eldiviðarvinnsla úr birki fyrir pitsustaði keppir á engan hátt við framleiðslu kurl­viðar til stóriðju.


Íslenski viðurinn hentar vel

Reynslan sýnir að grisjunarviður úr ís­lenskum nytjaskógum hentar mjög vel til notkunar í kísilverum. Skógræktin hef­ur afgreitt þúsundir tonna af grisjunarviði til Elkem á Grundartanga í nokkur ár. Með réttum vinnubrögðum er reynslan sú að heilir bolir úr ösp, greni, furu og lerki henta vel til kurlunar fyrir vinnsluna þar. Vert væri að gera sambærilegar prófanir í verksmiðju PCC á Bakka og hefur Skógræktin viðrað möguleika á því við fyrirtækið.

Árið 2015 var gerð viðarmagnsspá á veg­um Skógræktarinnar til að sjá hversu mikils grisjunarviðar væri að vænta úr skógum á Austurlandi á komandi árum. Samkvæmt þeirri spá mætti afgreiða nú þegar að minnsta kosti 2.000 rúm­metra á ári að austan. Við það mætti bæta talsverðu magni úr skógum á Norðurlandi einnig en þar eru skógarnir nokkru minni um sig og að jafnaði yngri en eystra. Um miðjan næsta áratug verður tiltækt grisjunarmagn úr skóg­un­um eystra komið í 10.000 rúmmetra á ári eða meira og þá verða skógarnir á Norðurlandi væntanlega farnir að gefa þúsundir rúmmetra á ári einnig.

Ávinningur fyrir alla

Nýting íslensks kurlviðar til kísilvinnslu hefur marga kosti í för með sér. Með henni er hægt að breyta grisjunarviði í verðmæti. Ella fengist lítið fyrir þennan við og hann myndi rotna á skógarbotninum með tilheyrandi losun kol­tví­sýr­ings. Ef timbrið brennur í ofni kísilvers verður sú koltvísýringslosun aftur á móti til gagns enda minnkar þá losun vegna innflutts kurlviðar eða kola. Þar með er notkunin liður í því að draga úr umhverfisáhrifum stóriðju á Íslandi. Ís­lenskir skógareigendur fengju tekjur sem gerðu þeim kleift að sinna nauðsynlegri grisjun skóganna. Þar með meg­um við búast við meiri hágæðaviði úr skógunum þegar þeir verða fullvaxnir. Gjaldeyrissparnaður felst líka í því fyrir þjóð­ar­búið að nýta íslenskt timbur og í raun er þetta ávinningur fyrir alla, skógareigendur, stóriðjuna, þjóðarbúið og um­hverfið.

Að svo stöddu geta íslenskir skógar aðeins annað litlu broti af eftirspurn eftir viðarkurli til kísilmálmvinnslu. Þeir vaxa þó vel og viðarmagnið í þeim eykst ár frá ári. Mun það brot því stækka tiltölulega hratt á komandi árum, eða þar til heildarflatarmál skóganna fer að hamla frekari framleiðslu. Eftirspurn eftir afurðum skóga er mikil, en auk iðnaðar­kurls og eldiviðar eru hér talsverðir markaðir fyrir smíðatimbur, undirburð og margt fleira. Til að anna eftirspurninni af þeirri hagkvæmni sem þarf til að keppa við innflutning þurfum við þó mun stærri skógarauðlind. Búum hana til – rækt­um meiri og betri skóga!


Texti og myndir: Pétur Halldórsson