Skógarfuran á Vöglum Þelamörk sem ættuð er frá Mæri og Raumsdal í Noregi og grópðursett 1986 er heil…
Skógarfuran á Vöglum Þelamörk sem ættuð er frá Mæri og Raumsdal í Noregi og grópðursett 1986 er heilbrigð og beinvaxin. Skógarbotninn er opinn og vel gróinn. Hér eru þeir Teitur og Valgeir Davíðssynir í skógarfurureitnum ásamt Brynjari Skúlasyni lengst til hægri. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Í skógarfurureit sem gróðursett var í árið 1986 á Vöglum á Þelamörk er lifun mjög góð og svo virðist sem furulús hafi lítið spillt fyrir vexti og þroska trjánna. Kvæmið er frá Mæri og Raumsdal í Noregi og lofar reiturinn góðu sem frægarður.

Skógarfurunni frá Mæri og Raumsdal líður vel á Þelamörk, er bein og falleg og hefur vaxið jafnt og þétt. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSkógarfura (Pinus sylvestris) var eitt sinn vonar­stjarna skógræktar á Íslandi og átti að verða ein megintegundin hér til timbur­fram­leiðslu. Teg­und­in var gróðursett í miklum mæli víða um land en á sjöunda áratugnum hrapaði þessi stjarna af himninum. Furulús lék hana illa, tré drápust í stórum stíl og einungis lítið brot af því sem gróðursett var lifði áfram. Reynt hafði verið fræ frá norðanverðum Noregi, Rússlandi, Póllandi, Skotlandi og víðar en sökum þess hve illa gekk misstu menn trú á skógarfuru til ræktunar í stórum stíl hérlendis.

Sum þeirra skógarfurutrjáa sem lifðu hafa aldrei þrifist vel en þó náð að tóra. Önnur hafa hins vegar vaxið jafnt og þétt og  sums staðar má jafnvel sjá mjög falleg eintök af tegundinni. Slík tré eru yfirleitt stök tré á stangli og vart hægt að tala um skógarfurulundi á landinu. Þó eru frá því undantekningar og líklega er eitt besta dæmið um það að finna í þjóðskóginum á Vöglum á Þelamörk sem er fáeinum kílómetrum innar í Hörgárdal en Þelamerkurskóli.

Fura frá Mæri og Raumsdal
virðist henta vel

Skógarfurureitur þessi er einungis um 0,3 hektarar að stærð. Trén voru gróðursett árið 1986 og kvæmið er frá Mæri og Raumsdal í Vestur-Noregi sem er á um það bil 63. gráðu norðlægrar breiddar. Svolítið var flutt inn af þessu fræi upp úr 1980 en ekki hefur farið miklum sögum af útkomunni. Brynjar Skúlason, skóg­erfða­fræð­ing­ur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, skoðaði þennan reit fyrir rúmum áratug og leist vel á. Þegar hann leit á reitinn nú í haust var hrifningin engu minni. Trén hafa þrifist vel og vaxið jafnt og þétt. Flest eru beinvaxin og stór hluti þeirra þróttmikill og efnilegur. Mikill meirihluti gróðursettra trjáa virðist hafa lifað og lítil ummerki eru um furulús þótt hún hafi greinilega verið í reitnum. Í Freyshólamýri á Völlum Héraði voru gróðursettar um 1.000 plöntur af skógarfuru þetta sama ár og þar líta mörg tré einnig vel út.

Hæstu trén í reitnum á Vöglum Þelamörk eru nú orðin á að giska átta metrar á hæð, jafnvel hærri. Brynjar hefur unnið að því síðustu daga að grisja reitinn, hreinsa burtu lélegustu trén og rýma til fyrir þeim bestu svo þau fái betra tækifæri til að vaxa áfram. Hann segir að þessi skógarfurureitur geti verið mjög álitlegur sem frægarður skógarfuru til fjölgunar á tegundinni hérlendis. Spennandi verði að sjá hvaða áhrif grisjunin hafi á trén sem eftir standa. Við næstu grisjun eftir 5-8 ár gefist tækifæri til að tína fræ af þeim trjám sem þá verða felld. Af þeim fræjum mætti til dæmis rækta upp nýjan frægarð á öðrum stað ef það þykir fýsi­legt.

Tilraunir með skógarfuru í gangi

Brynjar tínir fræ af skógarfurunni á Þelamörk. Trén sem standa í suðurjaðri reitsins hafa verið dugleg að mynda köngla og margir hafa þroskast í ár. Ljósmynd: Pétur HalldórssonEkki er á þessu stigi hægt að segja nokkuð um það hvort skógarfura á sér bjartari framtíð sem nytjategund í íslenskum skógum en álitið hefur verið síðustu hálfa öldina eða svo. Reiturinn á Vöglum gefur þó tilefni til að kanna málið nánar. Þess má líka geta að safnað hefur verið fræi af heilbrigðum skógarfurum sem standa í skógum og trjáreitum víða um land. Trjáplöntur af því fræi voru hafðar með í skógarfurutilraun sem sett var út 2003 í öllum landshlutum, aðallega með fræi úr norskum frægörðum.  Fyrstu vísbendingar úr þeim tilraunum eru að þessar íslensku skógarfurur séu lausar við lús og þrífist vel.

Að koma í skógarfurureitinn á Vöglum Þelamörk er eins og að glugga inn í skóg í Skandinavíu. Skógurinn er opinn og skógarbotninn því vel gróinn með fjölbreyttum botngróðri eins og algengt er að sjá í skógarfuruskógum Skandinavíu. Þetta gerir líka að verkum að slíkur skógur er mjög greiðfær og góður til útivistar.

Dálítið var tínt af könglum af skógarfurunni á Þelamörk nú í nóvember. Skógarfurufræ þarf að fá næði til eftirþroska og verða könglarnir því geymdir á svölum stað fram í febrúar í það minnsta. Þá verður hægt að klengja könglana til að ná í fræið og kanna frægæðin. Af þeim gæti sprottið önnur kynslóð furu af Þelamörk á Íslandi sem ættuð er frá Mæri og Raumsdal í Noregi.

Texti: Pétur Halldórsson