Mbl., 27/3 2003

Óþarfa áhyggjur kornbænda af skógi

"Það er niðurstaða okkar að skógrækt sé engin ógnun við akuryrkju né aðra matvælaframleiðslu í landinu."

AÐ undanförnu hafa komið fram ábendingar um nauðsyn þess að varðveita land til kornræktar í framtíðinni. Einkum er varað við því að taka ræktanlegt land undir sumarbústaði eða skógrækt. Nú síðast lét Haraldur Benediktsson, formaður Búnaðarsamtaka Vesturlands, slíkar áhyggjur í ljós í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 9. mars.

En er ástæða til að hafa áhyggjur af því að skógur eigi eftir að þrengja að kornrækt á Íslandi? Hversu líklegir eru árekstrar milli skógræktar, ferðaþjónustu og ræktunar matjurta og fóðurplantna? Til þess að átta okkur betur á samhenginu, er best að bera saman nokkrar tölur. Ræktanlegt land neðan 200 m hæðar er um 15.000 ferkílómetrar og þar af eru um 13.800 km² eða 92% óræktaðir. Hugsanlega þarf um 200 km² í viðbót til að uppfylla kornþörf innanlands. Samkvæmt áætlunum um landshlutabundin skógræktarverkefni er að því stefnt að á næstu 40 árum verði skógur ræktaður á um 2000 km² lands neðan 400 m hæðar. Yrði sú skógrækt öll á "ræktanlegu landi", þ.e. því landi sem hentað getur til matvæla- eða fóðurframleiðslu, myndi hún þó ekki þekja nema 13% þess. Þá yrðu enn óræktaðir samtals 11.600 km², eða 77% af ræktanlegu landi á Íslandi.

Ræktað land: ekki kjörlendi til skógræktar

En hlutfall skóga af ræktanlegu landi verður ekki svo hátt. Fyrir utan það að einhver hluti skógræktar verður ofan við 200 metra hæð, verður skógur ræktaður í brattlendi, á grýttum holtum, melum, söndum eða öðru rofnu landi. Algróið flatlendi er minna eftirsóknarvert til skógræktar, og enn síður tún á flatlendi, vegna hættu á skemmdum á trjám af völdum næturfrosta. Líklegri niðurstaða er að langt innan við helmingur skógræktar muni fara fram á ræktanlegu landi neðan 200 m hæðar. Minnstar líkur eru á að skógrækt verði stunduð á túnum eða öðru ræktuðu landi í stórum stíl. Þar ræður miklu að stofnkostnaður við skógrækt er þar hár vegna samkeppni við ágeng túngrös. Meðal annars þessvegna er landeigendum ráðið frá því til að taka tún til skógræktar. Ljóst má vera að "skerðing" ræktaðs og ræktanlegs lands af völdum skógræktar verður hverfandi lítil þegar á heildina er litið og ekkert sem bendir til að árekstrar séu yfirvofandi í sveitum landsins milli matvæla- og fóðurframleiðslu annars vegar og skógræktar og ferðaþjónustu hins vegar.

Skógrækt er afturkræf!

Saga mannkyns sýnir svo ekki verður um villst að skógrækt er afturkræf aðgerð og að skóglendi megi auðveldlega breyta í akurlendi og tún. Nánast allt land sem nú er ræktað í V-Evrópu og austanverðri N-Ameríku var þakið skógi þegar þar hófst ræktunarmenning. Á Íslandi var birkiskógur á nær öllu ræktanlegu landi við landnám. Saga menningar er samofin sögu skógareyðingar og af henni má draga þann lærdóm að skógur hindrar ekki ræktun. Fyrst landnámsmenn gátu rutt burt skógi með eldi, öxi og reku, þá er það varla miklum vandkvæðum bundið fyrir nútímamanninn og allar hans stórvirku vinnuvélar.

Við tökum heils hugar undir þá skoðun Haraldar, að bændur eigi að taka skynsamlegar ákvarðanir um nýtingu landareigna sinna og skuli "ekki að óathuguðu máli [taka] land undir skógræktina sem væri nýtanlegt í akuryrkju". En við andmælum því stjórnlyndi og forræðishyggju, sem aðrir hafa haldið á lofti að undanförnu, að þörf sé á lagaákvæðum svo stemma megi stigu við því að bændur rækti skóg á landi sem nýtanlegt væri til matvæla- og fóðurframleiðslu. Við teljum slíka forræðissviptingu vera atvinnufrelsissviptingu. Auk væru slík ákvæði allsendis óþörf. Ef hægt er að græða á því að rækta korn munu bændur fremur veðja á kornrækt en að bíða í áratugi eftir uppskeru skógræktar. Ef þörfin eða gróðavonin eða hörgull á landi verður nógu mikill munu bændur nýta allt ræktanlegt land á Íslandi og óhikað ryðja skóg til að brjóta land til kornræktar. Þá mun lítt stoða fyrir okkur skógræktarmenn að mótmæla, því þegar upp er staðið eru það landeigendur og markaðurinn sem ráða för.

Það er niðurstaða okkar að skógrækt sé engin ógnun við akuryrkju né aðra matvælaframleiðslu í landinu. Þvert á móti er skógrækt ágæt leið til að varðveita og bæta ræktanlegt land þar til breyttar markaðsaðstæður leiða til að bændur kjósi að taka það til gras- eða kornræktar. Fyrir utan að vernda jarðveg gegn rofi byggist upp forði næringarefna í jarðvegi á meðan skógur vex á honum. Það er þegar skógurinn hverfur sem áburðarefni skolast burt. Auk þess er óvíða í heiminum jafnmikil þörf á skjóli af trjám fyrir kornrækt en í okkar svala og vindasama landi. Því viljum við benda á þá leið til "varðveislu ræktanlegs lands" að beina svokölluðum "grænum greiðslum" til aukinnar skógræktar. Í skóglausu landi er nefnilega augljós skortur á skógi og í skjóli skógar verður uppskera matvæla og fóðurs margföld á við það sem fæst á berangri.

Eftir Aðalstein Sigurgeirsson og Þröst Eysteinsson

Höfundar eru forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, og fagmálastjóri Skógræktar ríkisins.