Merki fimmtánda heimsþings um skóga
Merki fimmtánda heimsþings um skóga

Heimsþing um skóga verður haldið í fimmtánda sinn í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, dagana 2.-6. maí 2022. Frestur til að skila inn útdráttum úr fyrirlestrum, veggspjöldum og myndböndum er til 30. júní 2021. Frestur til að sækja um hliðarviðburði er til 20. júlí.

Heimsþing um skóga er stærsti og mikilvægasti vettvangur þjóða heimsins til að fjalla um skóga og skógrækt. Þingið hefur verið haldið á sex ára fresti frá árinu 1926 undir hatti FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það er í boði þess lands sem ráðstefnuna heldur hverju sinni og í þetta sinn kemur það í hlut Suður-Kóreu. Upphaflega átti ráðstefnan að fara fram í maí á þessu ári en henni var frestað vegna veirufaraldursins COVID-19.

Ráðstefnan verður nú haldinn í fimmtánda sinn en síðast var Suður-Afríka gestgjafinn og þingið haldið í Durban árið 2015. Megináhersla þingsins í Seoul á næsta ári verður uppbygging grænnar, heilbrigðrar og þrautseigrar framtíðar með skógum, (Building a green, healthy and resilient future with forests).

Á heimsþingi um skóga kemur saman fagfólk í skógrækt og skógarnytjum hvaðanæva úr heiminum, fulltrúar fyrirtækja, stofnana, stjórnsýslu og stjórnmála, með öðrum orðum ýmsir sem hagsmuna hafa að gæta í málefnum sem snerta skóga og skógrækt um allan heim. Þar gefst því tækifæri til samtals og skoðanaskipta um þau viðfangsefni sem skógargeirinn í heiminum stendur frammi fyrir og færi á að leita sameiginlegra lausna á ýmsum úrlausnarefnum. Lögð verður áhersla á hlutverk skóga í tengslum við alþjóðleg markmið á borð við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Parísarsamkomulagið, markmið um líffjölbreytni og loftslagsmarkmið fram til 2030. Leitast verður við að draga fram aðalatriðin í því sambandi og meðal annars horft til þess hvernig skógar og skógargeirinn getur hjálpað heimsbyggðinni að ná sér og þróast áfram eftir veirufaraldurinn COVID-19.

Í lok júnímánaðar rennur út frestur til að skila inn útdráttum úr fyrirlestrum, veggspjöldum og myndböndum fyrir þingið í Seoul. Frestur til að sækja um hliðarviðburði er til 20. júlí. Sækja má um á sérstakri skráningarsíðu þingsins.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson