Eymundur Magnússon í nýju viðarkyndistöðinni í Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Ljósmynd: Hlynur Gauti …
Eymundur Magnússon í nýju viðarkyndistöðinni í Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Ljósmynd: Hlynur Gauti Sigurðsson

Viðarkyndistöð er komin upp á bænum Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Stöðin getur nýtt bæði viðarkurl úr skóginum í Vallanesi sem kurlað er á staðnum og viðarperlur frá Tandrabretti í Fjarðabyggð. Varminn verður nýttur til að hita upp húsin á bænum með hagkvæmari hætti en með rafmagni og jafnframt verður nú hætt að nota dísilolíu til kornþurrkunar. Stefnt er að því að viðarkyndingin hiti einnig upp gróðurhús á staðnum sem styður við ræktun og framleiðslu á búinu. 

Hlynur Gauti Sigurðsson, starfsmaður búgreinadeildar skógarbænda hjá Bændasamtökunum, skrifar um málið í Bændablaðinu sem kom út 24. ágúst. Einnig hefur hann unnið myndband um efnið sem komið er út á Youtube-rás Skógræktarinnar.

 

Eins og fram kemur í grein Hlyns hefur lífræn ræktun á grænmeti og kornvörum verið stunduð í rúma þrjá áratugi í Vallanesi. Þar eru bændurnir Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir frumkvöðlar og selja fjölbreyttar vörur í verslunum um allt land undir vörumerkinu „Móðir jörð“.

Ræktun skjólbelta hófst á jörðinni 1983 og samanlögð lengd þeirra er nú um níu kílómetrar. Samhliða hefur verið ræktaður skógur sem bæði hefur bætt mjög veðurskilyrði á jörðinni og gefið nýtanlegt timbur til húsbygginga og annarra nota. Hlynur Gauti nefnir í grein sinni sérstaklega hið svokallaða Asparhús sem var fyrsta húsið á Íslandi sem eingöngu var reist úr íslenskum viði. Þar voru meðal annars klæðningar og innréttingar unnar úr ösp sem vaxið hafði heima í Vallanesi. Nú er tekið nýtt skref í nýtingu viðarins og leysir viðarorkan nú af hólmi dísilvélar til kornþurrkunar og rafmagn til húshitunar.

Orka úr sjálfbærri hringrás

Í Vallanesi hafa skjólbelti verið ræktuð frá 1983 og skógrækt verið stunduð litlu skemur. Nú er ríkulega uppskorið af því starfi. Ljósmynd: Hlynur Gauti SigurðssonHlynur bendir á að viðarkynding sé sjálfbær og álitlegur orkukostur fyrir bújarðir. Trén vaxa og binda kolefni úr andrúmsloftinu, kolefnið er meginuppistaðan í timbrinu og þegar því er brennt losnar kolefnið aftur út í andrúmsloftið. Með þessu er ekki verið að bæta kolefni við lofthjúp jarðar heldur er byrjað á því að fjarlægja kolefnið sem síðan er notað við brennsluna í sjálfbærri hringrás. Skógurinn stendur áfram en ný tré koma í stað þeirra sem eru felld. Bolir eru nýttir til viðarframleiðslu sem leiðir til langvarandi geymslu kolefnisins í mannvirkjum og nytjahlutum. Til kyndingar eru nýttar greinar, grannir bolir og annað afsag.

Viður er nýttur til brennslu vítt og breitt um heiminn og er viðarbrennsla ein algengasta aðferðin til húshitunar og eldunar í mörgum löndum. Við Íslendingar erum heppin að hafa  græna raforku og jarðvarma en þrátt fyrir það er viðarkynding álitlegur kostur hér einni, sérstaklega á þeim svæðum þar sem dýrt er að kynda með rafmagni og enga hitaveitu að hafa. Eins og Hlynur Gauti tekur fram felst líka ákveðið öryggi í því að nýta heimafengna orku. Ekki þarf að óttast að húsin kólni ef rafmagn fer af eða að atvinnustarfsemi raskist eða verði fyrir tjóni.

Fleiri kyndistöðvar

Vaxandi áhugi er á því á Héraði að koma upp viðarkyndingu og nú hefur til dæmis verið tekin í notkun viðarkyndistöð við Végarð í Fljótsdal þar sem skrifstofur Fljótsdalshrepps eru til húsa. Fyrirtækið Tandrabretti á Eskifirði framleiðir viðarperlur fyrir slíkar stöðvar, bæði úr íslensku timbri og afgangstimbri sem til fellur. Systurfyrirtækið Tandraorka býður til sölu viðarkynditæki fyrir bæði íbúðarhús og stærri hús. Hægt er að velja milli þess að kaupa búnaðinn og reka á eigin vegum eða annars konar fyrirkomulag þar sem Tandraorka á búnaðinn en notandinn kaupir einungis heita vatnið sem frá honum kemur.

Timbur og timburafurðir verða kynntar í bás á Iðnaðarsýningunni í Laugardalshöll dagana 31. ágúst til 2. september. Básinn er hluti af sýningarsvæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og er settur upp í samvinnu Bændasamtakanna, Trétækniráðgjafar, Skógræktarinnar, Skógræktarfélags Íslands og Félags skógarbænda á Suðurlandi.

Frétt: Pétur Halldórsson