Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi verður opinn gestum sumardaginn fyrsta í tilefni af 80 ára starfsafmæli sínu. Skógtækni er eitt af því sem kennt er við skólann.

Í tilkynningu frá skólanum segir að á dagskránni verði fullt af skemmtilegum viðburðum og ferskt grænmeti verði til sölu.

Skólinn verður opinn frá kl. 10 til 17.  Sumarið er komið í garðskálanum og hægt verður að stíga inn í hitabeltið í bananahúsinu og pottaplöntusafninu. Verkefni nemenda í skrúðgarðyrkju verða til sýnis í verknámshúsinu og við inngang skólans. Kaffiveitingar verða í boði og markaðstorg þar sem m.a. verður á boðstólum glæný uppskera af hnúðkáli, grænkáli og gulrótum.

Ýmiss konar afþreying verður í boði fyrir börnin, s.s. ratleikur og andlitsmálun, þau geta sáð salatfræjum og tekið með heim o.fl. o.fl. Ketilkaffi verður hitað utan dyra yfir eldi og krökkum boðið að grilla sykurpúða. Sérstök hátíðardagskrá verður kl. 13.30-14.45 (sjá nánar í dagskrá hér að neðan) þar sem afhent verða garðyrkjuverðlaun LbhÍ,  umhverfisverðlaun Hveragerðis og umhverfisverðlaun Ölfuss.

Sama dag verður Landbúnaðarháskólinn með svokallaða skeifuhátíð á Hvanneyri.

Hátíðardagskrá í Garðyrkjuskóla LbhÍ

Reykjum í Ölfusi

25. apríl 2019 kl. 13.30-14.45

Fundarstjóri:  Björgvin Örn Eggertsson
13.30-13.35  Ávarp fundarstjóra
13.35-13.40  Setning – Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor LbhÍ
13.40-14.00  Garðyrkjuverðlaun LbhÍ 2019 – forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson
14.00-14.10  Umhverfisverðlaun Hveragerðis – mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir
14.10-14.20  Umhverfisverðlaun Ölfuss – mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir
14.20-14.30   Landvernd afhendir Garðyrkjuskóla LbhÍ Grænfánann – Katrín Magnúsdóttir, verkefnastjóri Skóla á grænni grein
14.30-14.35  Ávarp – Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda
14.35-14.45  Slit – Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum