Allar starfstöðvar Skógræktarinnar hafa nú tekið fimm græn skref og hljóta viðurkenningarskjal. Hér …
Allar starfstöðvar Skógræktarinnar hafa nú tekið fimm græn skref og hljóta viðurkenningarskjal. Hér er skjalið sem hengt hefur verið upp á aðalskrifstofu Skógræktarinnar á Egilsstöðum

Nú í desember náðist sá merki áfangi í starfsemi Skógræktarinnar að allar starfstöðvar stofnunarinnar hafa tekið öll grænu skrefin fimm í ríkisrekstri. Þar með hafa verið gerðar ýmsar umbætur á daglegum rekstri stofnunarinnar. Þetta þýðir þó ekki að umhverfisstarfinu sé lokið. Sjá þarf til þess að ekki verði bakslag í þeim atriðum sem bætt hefur verið úr og jafnframt aukast kröfurnar þegar kemur að því að endurnýja skrefin.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verkefninu Grænum skrefum. Verkefnið er tæki fyrir ríkisstofnanir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Umhverfisráðuneytið fjármagnar verkefnið og er þátttaka því stofnunum að kostnaðarlausu.

Stofnanir sem skrá sig til leiks fylgja skýrum gátlistum sem skipt er upp í fimm skref. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í rekstri sínum. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og fyrir hvert skref sem stofnanir ljúka við er veitt viðurkenning.

Lokaskrefið tekið 6. desember

Skógræktin tók fyrsta skrefið árið 2018, skref 2 og 3 árið 2020 og það fjórða náðist í nóvember síðastliðnum. Fimmta og síðasta skrefið lýtur aðallega að miðlægum atriðum í rekstri og tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun. Þar er umhverfis- og loftslagsstefna viðkomandi stofnunar mikilvægt atriði en Skógræktin gaf út slíka stefnu á síðasta ári og birti á skogur.is Úttekt á fimmta skrefinu hjá Skógræktinni var gerð í byrjun desember og viðurkenningin veitt 6. desember með undirskrift Guðmundar Inga Guðbrandssonar, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra.

Helstu markmið í umhverfis- og loftslagsstefnu Skógræktarinnar til 2030Markmið Grænna skrefa eru að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins, efla umhverfisvitund starfsmanna, auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra en jafnframt að draga úr rekstrarkostnaði. Mikil áhersla er lögð á að draga úr umhverfisáhrifum daglegra athafna með orkusparnaði, minni notkun jarðefnaeldsneytis, kaupum á umhverfismerktum vörum, ábyrgri efnanotkun, bættum samgöngumáta og þar fram eftir götunum.

Þar sem Skógræktin er dreifð stofnun með starfsemi í öllum landshlutum og margir starfsmenn þurfa að vera mikið á ferðinni vegna vinnu sinnar er akstur atriði sem áfram þarf að huga vel að. Í umhverfis- og loftslagsstefnu Skógræktarinnar segir að árið 2030 skuli að minnsta kosti helmingur bifreiða í rekstri hjá Skógræktinni vera knúinn endurnýjanlegri orku eingöngu. Enn er erfitt að fá rafbíla sem henta í skógarvinnu en von er á slíkum bílum á markað á næstu misserum og árum. Þá kemur líka til greina að smærri rafknúin tæki eins og fjór- eða sexhjól geti komið að einhverju leyti í stað hefðbundinna pallbíla. Þetta verður skoðað með opnum huga svo hraða megi sem mest orkuskiptum hjá Skógræktinni.

Orkuskipti hafin hjá Skógræktinni

Skógræktin er reyndar nú þegar farin að stíga skref til orkuskipta. Um þessar mundir er verið að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla á nokkrum starfstöðvum. Einnig er verið að kaupa rafknúnar keðjusagir í öll skógarvarðarumdæmin fjögur og rafknúinn liðléttingur er væntanlegur í starfstöðina í Vaglaskógi. Allt er þetta gert með styrk úr Orkusjóði. Fyrir vinnuvélar greiðir sjóðurinn um það bil þann verðmun sem er á rafknúnum tækjum og hefðbundnum tækjum með brunahreyfli.

Starfsfólk Skógræktarinnar er hvatt til þess að halda áfram að taka framförum í umhverfislegri hugsun og athöfnum. Nú fyrir jólin er upplagt að skoða orkusparandi tékklista Grænna skrefa. Á listanum eru nokkur atriði sem gott er að huga að svo spara megi orku yfir jólin en líka um páska, í sumarfríinu eða á öðrum tímum þegar fólk er í leyfi frá vinnu. Sömuleiðis er gott að skoða áfram gátlista Grænna skrefa því alltaf eru atriði sem hægt er að bæta, jafnvel þótt skrefum hafi formlega verið náð. Þá er líka vert að minna á að viðurkenningarnar eru ekki endapunktur. Að því kemur að Umhverfisstofnun gerir nýjar úttektir til að sjá hvort þátttakendur hafa haldið sig við efnið. Þá má líka vænta þess að enn meiri kröfur verði gerðar enda lýkur umbótum í umhverfismálum seint eða aldrei og alltaf er hægt að gera betur. Takmarkmið allra ætti að vera að taka þó ekki væri nema eitt lítið grænt hænufet á hverjum einasta degi.

Skógræktin þakkar starfsfólki sínu fyrir gott starf að Grænu skrefunum með hvatningu um gott, grænt framhald. Að neðan eru nokkrar myndir af starfsfólki að fagna áfanganum.

Frétt: Pétur Halldórsson