Sérfræðingur hjá Landgræðslunni hvetur bændur til dáða

„Sauðfjárbúskapur byggir afkomu sína að miklu leyti á sumarbeit. Mest allt sauðfé landsins gengur frjálst á afréttum og upprekstrarheimalöndum frá því síðla júní fram í september ár hvert. Það væri gott og blessað ef úthagavistkerfin væru alls staðar heil og í fullri virkni. Því miður skortir sums staðar talsvert upp á að svo sé.“

Á þessa leið hefst grein Þórunnar Pétursdóttur, sérfræðings hjá Landgræðslu Íslands, í nýjasta tölublaði Bændablaðsins þar sem hún hvetur bændur til að taka frumkvæði í beitarstýringarmálum. Það sé hagur allra Íslendinga, ekki síst bænda, að úthagavistkerfi landsins séu nýtt með þeim hætti að það rýri ekki náttúrugæði þeirra. Talsverður hluti íslenskra úthagavistkerfa sé raskaður og virkni þeirra því undir vistfræðilegri getu. Þetta þýðir með öðrum orðum að landið sé skemmt og ofnýtt, þoli ekki þá beit sem á það er lögð.

Í greininni hælir Þórunn þeim bændum sem hafa staðið sig vel við landgræðslustörf en á máli hennar má skilja að nokkur mótsögn sé þar með fólgin í því hvernig sömu bændur beita fé sínu að sumri. Enn skorti heildstæða áætlun fyrir skipulag sauðfjárbeitar að sumarlagi. Flestir sauðfjárbændur beiti enn afrétti og upprekstrarheimalönd samkvæmt gömlum hefðum. í mörgum tilfellum sé enn verið að beita fé á illa farið land og auðnir. Þá skrifar Þórunn:

„Misgott ástand úthagavistkerfa er eitt af stærstu umhverfismálum Íslands, - eitthvað sem við getum ekki látið reka á reiðanum lengur. Það er löngu tímabært að taka á nýtingu þeirra af mun meiri festu en hingað til hefur tíðkast. Endurheimt raskaðra vistkerfa, bætt beitarskipulag og markviss vöktun á vistfræðilegu ástandi úthagavistkerfa eru forgangsatriði til að efla og viðhalda þessari auðlind sem er undirstaða sauðfjárbúskapar eins og hann er stundaður í dag.“

Þórunn bendir á að vissulega sé ástand lands mjög misgott eftir svæðum. Hún nefnir ýmis fleiri atriði eins og vaxandi ferðamennsku, ágang á eignarlönd annarra, búháttabreytingar til sveita og fleira en endar greinina á því að hvetja bændur til þess að taka þetta mál upp á sína arma hið fyrsta og kalla eftir aðstoð stjórnvalda til að móta öflugt beitarstýringar- og vistfræðilegt vöktunarkerfi í hverjum landsfjórðungi. „Það yrði okkar allra hagur“

Greinina má lesa í heild á blaðsíðu 47 í Bændablaðinu, 4. tölublaði 2014.